Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Trappist bjórar

Þegar fólk hugsar um munka er bjór kannski ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann. En bjór hefur einmitt verið bruggaður af munkum, líklegast síðan á fimmtu eða sjöttu öld, þó svo að uppskriftir bjóranna eins og þeir þekkjast í dag hafi ekki litið dagsins ljós fyrr en upp úr miðri 20. öld.  En hvers vegna fóru munkar að brugga bjór? Í mjög einfölduðu og styttu máli var ein ástæðan sú að bjór var einfaldlega mun öruggari leið til að innbyrða vökva heldur en að drekka vatn, sem var oftar en ekki uppfullt af skaðlegum bakteríum og veirum sem voru beinlínis stórhættulegar fólki.  Önnur ástæða er sú að munkarnir fylgdu þeirri reglu að vera sjálfum sér nægir og voru skyldugir til þess að veita pílagrímum og utanaðkomandi gestum mat og drykk.  Munkarnir byrjuðu því að brugga bjór.  Einn kosturinn við þetta var sá að munkarnir voru þarna komnir með næringarríkan drykk sem þeir gátu bæði neytt daglega og við föstu ásamt því að geta boðið gestum og gangandi. 


Trappistareglan dregur nafn sitt af La Grande Trappe klaustrinu sem staðsett er í Normandy í Frakklandi og heitir í raun Order of Cistercians of the Strict Observance.  Til þess að mega bera merki Trappista verða bjórarnir að vera bruggaðir innan veggja viðkomandi klausturs, af munkunum sjálfum eða undir leiðsögn þeirra og allur hagnaður af sölu bjóranna verður að renna í samfélags/góðgerðarstörf eða til uppbyggingar og viðhalds viðkomandi klausturs.  Flest Trappistaklaustrin sem brugga bjór má finna í Belgíu, en þau eru þar sex talsins, tvö eru staðsett í Hollandi ásamt því að Austurríki, Frakkland, Spánn, Ítalía, Bandaríkin og England hafa hvert um sig eitt Trappistaklaustur sem framleiðir bjóra sem mega nota Trappist merkið.


Bjórarnir sem þessi klaustur framleiða eru í mörgum tilvikum í svipuðum stíl, þ.e. nokkuð þétt og bragðmikil öl (oft í Blonde, Dubbel, Tripel og Quadrupel stíl) sem ganga út á flókið samspil milli gerafbrigðis sem notast er við, sykurs og malts, ásamt hóflegri humlanotkun. Þessi öl passa ákaflega vel með t.d. bragðmiklum kássum, eftirréttum og ostum, en sum þessara klaustra framleiða einmitt einnig osta.  Annað atriði sem gerir þessa bjóra áhugaverða er sú staðreynd að þeir hafa flestir frekar háan vínandastyrk, 7-11% abv, eru þéttir og eru eftirgerjaðir á flösku sem gerir það að verkum að þeir batna flestir við geymslu og margir þeirra taka á sig gríðarlega skemmtilegan karakter eftir 2-4 ár í kjallaranum.


Frekari fróðleik má sjá á heimasíðu Trappist samtakanna 

 

Gísli Guðmundsson vínráðgjafi
Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi