Jalapeño og Sauvignon Blanc

Undanfarið hefur verið áberandi trend á samfélagsmiðlum, sérstaklega TikTok, þar sem skorið jalapeños er fryst og svo skellt út í glas af Sauvignon Blanc. Þetta trend hefur farið eins og sinueldur undir heitinu Spicy Sauvy B og þykir sumum þetta gera Sauvignon Blanc enn ferskara.  

Þetta kann að koma sumum spánskt fyrir sjónir en það er nú svo sem ekkert nýtt af nálinni að blanda allskonar ávöxtum út í rauðvín eða hvítvín en við þekkjum hvað best Sangríu og jólaglögg. En að blanda sterkum chili pipar er kannski það sem er nýjabrumið í þessu, þó þetta fyrirbæri þekkist í bjór og sterku áfengi. Í þessu samhengi er gott að hafa í huga að við skynjum brunatilfinningu sterka bragðsins á sama stað í munninum og við skynjum alkóhól, þannig að þeir sem vilja dempa brunatilfinninguna ættu að íhuga að fjarlægja fræin úr jalapeñoinu. 

En af hverju jalapeños og Sauvignon Blanc?
Jú vegna þess að það er eitt sem þau eiga sameiginlegt: 3-isobutyl-2-methoxypyrazine. Þetta er sameindin sem gefur helst af sér bragðeinkenni grænnar papriku en einnig tómatlaufa, aspas, nýslegins grass og grænna bauna. Sauvignon Blanc er tiltölulega ilmrík þrúga en bragðeinkenni berjategundarinnar koma úr hýðinu. Þar skiptir þroski bersins máli og hversu mikið sólarljós berin hafa fengið. Þessi bragðeinkenni eru hvað mest í upphafi þroskaferilsins, þegar berið er tiltölulega óþroskað. Það eru ákveðnir stílar sem oft og tíðum bera þessi einkenni frekar en önnur og hefur Nýsjálenskur Sauvignon Blanc frá Marlborough gjarnan verið áberandi.  

Af hverju?
Jú, vegna þess að í víngarðinum er vínviðnum plantað í þannig raðir að hluti berjanna fær meira sólarljós, sem skilar af sér ávaxtaríkari einkennum, sér í lagi passjón. En hluti berjanna fær minna sólarljós sem skilar sér í hærra hlutfalli af 3-isobutyl-2-methoxypyrazine, sem er sama sameind og fyrirfinnst í jalapeños. Það er líklegra að berin í Marlborough séu uppskorin með vélum og þegar það er gert springur berið örlítið og safi berjanna fær að liggja með hýðinu í aðeins lengri tíma en þegar berin eru handtínd. Það skilar sér í bragðmeiri vínum.  

Sietze Wijma sem hefur sérhæft sig í bragðefnafræði í skynmatsfræðunum heldur úti áhugaverðum fróðleik í gegnum Art of Tasting. Í hans umfjöllun um þetta trend bendir hann á að Sauvignon Blanc á einnig annað sameiginlegt með öðrum hlutum, eins og til dæmis alkóhól, en þó myndi okkur ekki detta í hug að bæta viskíi út í vínið. Og ef við ætluðum að taka þessar tilraunir á næsta stig, þá myndi líklegast fylgja því að bæta við vanillustöng út í eikað Chardonnay, kókosflögum út í Rioja Reserva, eða vínarbrauði út í Kampavínið. Líklegast fyndist okkur það frekar skrýtið. 

 


Berglind Helgadóttir DipWSET
Vínsérfræðingur