Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Chardonnay

23. maí er alþjóðlegur Chardonnay dagur. Chardonnay er líklegast sú hvíta berjategund sem er hvað þekktust og hefur verið það mjög lengi. Þessi berjategund gefur af sér ólíka og fjölbreytta stíla, allt frá einföldum og tiltölulega ódýrum hvítvínum upp í dýrustu gæðahvítvín heims. 

Chardonnay sýnir vel veðurfarið þar sem hún er ræktuð, hvort það sé hlýtt eða svalt. Þannig eru vín frá berjum sem eru ræktuð á svölum ræktunarsvæðum, eins og til dæmis Chablis í Frakklandi, með fínlegan ávöxt, sítrus og eplatóna og eru með ferskri sýru. En þau sem eru ræktuð á heitari svæðum, eins og til dæmis í Central Valley í Kaliforníu, gefa af sér vín með suðrænan ávöxt, ananas og melónu og eru með mildari sýru.  

Chardonnay hefur stundum verið kölluð draumur víngerðarmannsins vegna þess hve vel hún sýnir þá meðhöndlun sem hún fær í víngerðinni.  Í grunninn er þessi berjategund tiltölulega einföld og sýnir því enn betur flóknari bragðeinkenni en aðrar bragðmiklar berjategundir. Ef vínið er sett í tunnur bætast til dæmis við vanilla eða kókos. Ef vínið fær að liggja á gerinu í einhvern tíma bætast við gertónar, til dæmis tertubotn eða eplabaka. Mörg hver af dýrari Búrgúndarvínunum bera þessi einkenni, sem og hvítvín til dæmis frá Napa Valley í Kaliforníu. Kampavín eru líka þekkt fyrir að sýna bragðeinkenni gersins sem fást með seinni gerjuninni sem fer fram í flöskunni sjálfri.  

Tunnur og ger eru meðal þess sem ljá vínum flóknari bragðeinkenni en kjósi víngerðarmaður að hafa vínið einfalt og í ódýrari kantinum, þá er það helst sett í stáltanka. Þá sýnir hvítvínið aðeins þau einkenni sem berjategundin og staðsetningin hefur upp á að bjóða. 

Í Vínbúðinni fást alls kyns Chardonnay vín frá öllum heimshornum og eins og sjá má hér að ofan þá er Chardonnay ekki það sama og Chardonnay. 
 


Berglind Helgadóttir DipWSET
vínráðgjafi