Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Ársskýrsla ÁTVR 2017

20.04.2018

Ársskýrsla ÁTVR er komin út. Ársskýrslan er eingöngu á rafrænu formi en hægt er að prenta út einstaka hluta hennar eða skýrsluna í heild.

Við gerð skýrslunnar er fylgt Global Reporting Initiative (GRI), G4, þar sem markmiðið er að skrá  og miðla með gagnsæjum hætti upplýsingum sem tengdar eru samfélagslegri ábyrgð. Gerð er grein fyrir  42 mælikvörðum sem eru að fullu uppfylltir og 3 að hluta uppfylltir í 6 flokkum.
 

Hagnaður ÁTVR var 1.366  m.kr. Rekstrartekjur ársins voru 34.276 m.kr. Rekstrargjöld námu 32.937 m.kr. Þar af var vörunotkun 29.066 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 1.547 m.kr. eða 4,5 % miðað við 5,6 % á fyrra ári. Arðsemi eiginfjár á árinu var 28,2%.
 

Tekjur af sölu áfengis voru 24.942 m.kr. án vsk. og hækkuðu um 5,5% á milli ára. Alls voru seldir 21,9 milljónir lítra af áfengi. Sala ársins var 4,8% meiri í lítrum í samanburði við fyrra ár. Sala á sterku áfengi (>22% alk.) jókst um 6,3%, sala á léttvíni (<=22% alk.) jókst um 4,4% og á bjór um 4,8%. 
 

Tekjur af sölu tóbaks drógust saman um tæplega 1% á milli áranna 2016 og 2017 og voru 9.252 m.kr. án vsk. Tóbakssala dróst saman í öllum flokkum, mest í reyktóbaki 29%, vindlum um 13%, neftóbaki um 5,8% og sígarettum (vindlingum) um 9,4%.

Á árinu fengu 738 starfsmenn greidd laun hjá ÁTVR. Margir eru í hlutastarfi. Ársverk voru 334. Í árslok rak ÁTVR 51 Vínbúð þar af 14 á höfuðborgarsvæðinu. Á árinu 2017 opnaði ein ný Vínbúð í Garðabæ.