Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Ný Vínbúð opnar í Borgartúni

09.05.2008

Verslunarsjóri og aðstoðarverslunarstjóri í nýrri Vínbúð í Borgartúni.Ný Vínbúð hefur verið opnuð í Borgartúni 26. Í versluninni, sem er 450 fermetrar að stærð, verður lögð sérstök áhersla á gæðavín og vínráðgjöf. Opnun verslunarinnar er í samræmi við þá stefnu ÁTVR að byggja upp þjónustu með þarfir hinna ólíku viðskiptavina í huga og grundvalla Vínbúðirnar á hvatningu til að njóta áhugaverðrar tengingar matar og vína.

Mynd: Þorgeir Baldursson, verslunarstjóri og Valgerður A. Jóhannesdóttir, aðstoðarverslunarstjóri í nýrri verslun í Borgartúni.

 

Verslunin við Borgartún er byggð á nýju skipulagi sem miðar að því að auka hagræði bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk. Allur bjór verður hafður á afmörkuðu kældu svæði. Það er bæði til mikils hagræðis fyrir viðskiptavini og dregur úr vinnuálagi sem skapast af mikilli umstöflun á bjór. Með þessu móti hafa viðskiptavinir einnig betra næði til að skoða úrval vína en sem kunnugt er hefur áhugi viðskiptavina Vínbúðanna á léttvínum aukist undanfarin ár.

Vínbúðin í Borgartúni er 48. vínbúðin sem opnuð er og þrettánda Vínbúðin á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hefur verið opnuð ný vínbúð á höfuðborgarsvæðinu síðan 2001 þegar Vínbúðin í Smáralind var opnuð, að frátalinni Vínbúðinni í Skeifunni sem kom í stað Vínbúðarinnar í Holtagörðum. 

 

NÝ AUGLÝSINGAHERFERÐ
ÁTVR hefur einnig hafið nýja auglýsingaherferð þar sem lykilsetningin er: Láttu ekki vín breyta þér í svín, drekktu eins og manneskja. Markmiðið er að minna fólk á að umgangast áfengi af ábyrgðartilfinningu og sóma.

Bent er á að þegar fólk drekkur of mikið gerir það stundum hluti sem það annars gerir ekki. Til þess að koma þessari hugmynd til skila er fólk sem hegðar sér ósæmilega við aðstæður sem almenningur þekkir og mislíkar sýnt með svínsandlit. Auglýsingarnar eiga að höfða á áhrifaríkan hátt til þeirra sem eru orðnir þreyttir á drykkjulátum en einnig að vera þörf ábending til þeirra sem fyrir þeim standa. Þær eiga að vekja umræðu og hvetja fólk til að velta fyrir sér ábyrgari neyslu áfengis og ekki síður hvernig það sjálft hegði sér undir áhrifum.

Herferðin kemur í kjölfar fjölda forvarnarherferða undanfarin ár. Í þeim hefur meðal annars verið lögð áhersla á mikilvægi skilríkja við áfengiskaup, hversu alvarlegt það er að aka undir áhrifum áfengis og að gestgjafar krefjist þess að gestir þeirra aki ekki undir áhrifum. Forvarnarstarfið er í samræmi við skilgreiningu fyrirtækisins sem samfélagslega ábyrgt fyrirtæki sem leggur áherslu á að vinna í átt að jákvæðri vínmenningu með því að stuðla að ábyrgri áfengisneyslu og umgengni við áfengi, öllum til ánægju.

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Ósk Sigurðardóttir í síma 560 7700.