ÁTVR fyrirmyndarstofnun 2016

22.05.2016

Niðurstöður úr könnuninni Stofnun ársins 2016 voru kynntar ellefta árið í röð þann 12. maí í Silfurbergi í Hörpu að viðstöddu fjölmenni. Stofnanir ársins eru þrjár, hver í sínum stærðarflokki en auk þess fengu Fyrirmyndarstofnanir viðurkenningu.

Í flokki stórra stofnana eru fimm fyrirmyndarstofnanir. Ríkisskattstjóri trónir þar á toppnum, en Fjölbrautaskóli Suðurnesja var í öðru sæti og Reykjalundur í þriðja sæti. Vínbúðirnar (ÁTVR) eru í fjórða sæti á þessum lista (í 6. sæti í fyrra) og Fjölbrautaskólinn við Ármúla í fimmta sæti. Þessar fimm stofnanirnar hljóta sæmdarheitið Fyrirmyndarstofnun.

Könnunin sem er ein sú stærsta sinnar tegundar á landinu er unnin af Gallup í samstarfi við VR, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og Fjármála - og efnahagsráðuneytið. Val á Stofnun ársins er byggt á svörum tæplega 8.000 starfsmanna hjá ríki og sjálfseignarstofnunum sem starfa hjá 142 stofnunum.

Í könnuninni eru mældir þættir á borð við ánægju og stolt, starfsanda, trúverðugleika stjórnenda, launakjör, sjálfstæði í starfi, vinnuskilyrði, sveigjanleika vinnu, ímynd stofnunar og nú í fyrsta sinn jafnrétti. Starfsmenn svara ítarlegri könnun um alla þessa þætti og er val á Stofnun ársins byggt á þeim svörum. Niðurstöðurnar gefa jafnt stjórnendum sem starfsfólki mikilvægar upplýsingar um stöðu mála innan stofnunarinnar og verðmætan samanburð við aðrar stofnanir og fyrirtæki.

Við erum að vonum stolt af þessum frábæra árangri og stefnum á að gera enn betur að ári!​