Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Láttu ekki vín breyta þér í svín, drekktu eins og manneskja.

Vínbúðirnar hafa nú sett í loftið nýja auglýsingaherferð þar sem lykilsetningin er: Láttu ekki vín breyta þér í svín, drekktu eins og manneskja. Markmiðið er að minna fólk á að umgangast áfengi af ábyrgðartilfinningu og sóma.

Bent er á að þegar fólk drekkur of mikið gerir það stundum hluti sem það annars gerir ekki.  Til þess að koma þessari hugmynd til skila er fólk sem hegðar sér ósæmilega við aðstæður sem almenningur þekkir og mislíkar sýnt með svínsandlit. Auglýsingarnar eiga að höfða á áhrifaríkan hátt til þeirra sem eru orðnir þreyttir á drykkjulátum en einnig að vera þörf ábending til þeirra sem fyrir þeim standa. Þær eiga að vekja umræðu og hvetja fólk til að velta fyrir sér ábyrgari neyslu áfengis og ekki síður hvernig það sjálft hegði sér undir áhrifum.

Forvarnarstarfið er í samræmi við skilgreiningu fyrirtækisins sem samfélagslega ábyrgt fyrirtæki sem leggur áherslu á að vinna í átt að jákvæðri vínmenningu með því að stuðla að ábyrgri áfengisneyslu og umgengni við áfengi, öllum til ánægju.

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Ósk Sigurðardóttir í síma 560 7700.