Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Vín með kydduðum mat

Það getur verið þrautin þyngri að finna heppileg vín með krydduðum mat, ekki síst austurlenskum. Kryddin breyta bragðinu á víninu; til dæmis dregur chili úr sætunni og þá virðist vínið tannískara, beiskt og jafnvel málmkennt. Í raun þarf ekki svo sterk krydd til að hafa þessi neikvæðu áhrif.


Hvað getum við þá gert til að finna gott jafnvægi milli sterkra rétta og vína? Til að parast sem best með krydduðum mat þurfa vínin að vera búin ákveðnum eiginleikum. Vínin þurfa að hafa sætkenndan ávöxt, mýkt og litla eik. Einkenni eins og þessi eru algengari í hvítum þrúgum en rauðum og verða hvítvín því oftar fyrir valinu með krydduðum mat. 


Hvaða vín á þá að velja og eru einhverjar þrúgur frá ákveðnum svæðum eða löndum betri en önnur? Þegar kemur að hvítu þrúgunum þá eru Gewürztraminer og Pinot Gris frá Alsace heppileg.    Sauvignon Blanc frá Nýja Sjálandi og sætt Riesling, gjarnan frá Þýskalandi, eru einnig einstaklega góð.      Það eru reyndar margar þrúgur og svæði sem koma til greina, svo lengi sem þau hafa ákveðin einkenni. Til staðar þarf að vera mýkt og sæta og góður ávöxtur spillir ekki. Gott er ef vínin hafa létta kryddtóna sem tengja betur saman vínið og matinn. 


Svipaðar reglur gilda með rauðu þrúgurnar; góður ávöxtur, mýkt og ekki spillir að hafa smá sætu. Einkenni eins og þessi er helst að finna í rauðvínum frá Nýja-heiminum en einnig hafa ítölsk vín í Appasimento stílnum komið vel út, enda flest smásæt. Hér eru eins og í hvítu þrúgunum margar undantekningar.
Lýsingar á einkennum vínanna þar sem fram kemur fylling, sæta, ávöxtur, mýkt og eik er að finna á hillumiðum Vínbúðanna. Gaman er að prófa sig áfram með pörunina og komast að því hvað manni finnst sjálfum best.     

Júlíus Þ. Steinarsson vínráðgjafiJúlíus Þ. Steinarsson
vínráðgjafi