Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Lyon

- Hjarta matarmenningar Frakklands-

Um borgina Lyon renna tvær ár, Rhone og Saone, reyndar segja gárungar að árnar séu þrjár, að sú  þriðja sé Beaujolais. Vínin frá því svæði og Rhone eru gjarnan í boði á veitingahúsum Lyon. Borgin er vel staðsett á milli þessara tveggja vínræktarsvæða. Lyon er þægileg borg, snyrtileg, með allt til alls og fullt af sögulegum minjum. Það má nefna að Claudius, fyrsti rómverski keisarinn sem fæddur var utan Ítalíu, fæddist í Lyon. 1528 fannst bronstafla með áletraðri ræðu Claudiusar, í víngarði á Croix-Rousse hæðinni. Í dag er þar einn stærsti útimarkaður í Lyon sem gaman er að rölta um.

Rhone-Alpes héraðið hefur upp á að bjóða mikið úrval af hráefni til matargerðar; grænmeti, ávexti, osta og svo verður að nefna Bress kjúklinginn sem af mörgum er talið eitt besta kjúklingakjöt í heimi. Saucisson pylsur, ostar og gæðasúkkulaði. Í borginni eru ýmiskonar veitingastaðir sem bjóða upp á mat frá næstum öllum heimshornum, þar sem finna má allt sem þarf til að gleðja svanga sælkera. Skemmtileg upplifun var að fara á veitingastað á hjólum, tveggja hæða rútu með veitingasal fyrir 38 manns á efri hæðinni og eldhúsið á þeirri neðri. Þarna var boðið upp á sex rétta kvöldverð sem snæddur var á meðan rútan ók um áhugaverða staði í Lyon. 

Rhone vínræktarhéraðið liggur sunnan við Lyon og nær niður til Miðjarðarhafs, en það skiptist í Norður- og Suður-Rhone. Fá frönsk vínræktarhéruð geta státað af jafn langri vínræktarsögu. Það voru Grikkir sem reistu borgina Marseille 600 fyrir Krist og komust þeir fljótt að raun um að svæðið væri tilvalið til vínræktar. Undir yfirráðum Rómverja breiddist vínræktin út til Norður-Rhone. Þrátt fyrir langa sögu er ekki svo langt síðan vín frá Rhone fóru að njóta þeirrar hylli og virðingar sem þau hafa í dag. 

Í Norður-Rhone er Syrah þrúgan (víða annarsstaðar kölluð Shiraz) uppistaðan í rauðvínunum og má segja að það stjórnist af svalara loftslagi en í Suður-Rhone, en þar er aftur á móti fjöldinn allur af þrúgum notaðar. Hvítar þrúgur eru Viognier, Marsanne og Rousanne. Þessar hvítu þrúgur má stundum finna í litlu magni í rauðvínum frá Norður-Rhone og er þaðan komin fyrirmyndin af Syrah/Viognier blöndum frá Nýja-Heiminum. Innan Norður-Rhone eru svæðin Côte Rôtie, nyrst, svo Condrieu hvaðan ein frægustu hvítvín úr Viognier koma, Chateau Grillet þeirra frægast. Næst kemur Saint-Joseph sem liggur meðfram vesturbakka Rónar. Rauðvínin þaðan voru í miklu uppáhaldi við hirð Loðvíks XII, sem er kannski engin furða, því kóngsi átti vínekru þar. Hinum megin við ána er svo Hermitage umlukið Crozes-Hermitage, frá því fyrrnefnda koma öflug Syrah vín sem þola langa geymslu og byggja upp flókin ilm- og bragðsambönd við slökun í vínkjöllurum. Crozes-Hermitage eru aftur á móti fyrr tilbúin, ekki eins kröftug, en hafa sjarma sem fæst aðeins með góðu uppeldi. Í Tain-l'Hermitage er súkkulaðiframleiðandinn Valrhona sem maður verður bara að banka uppá hjá. Þar er hægt að læra ýmislegt um súkkulaði og smakka. Ég lýk þessu svo með því að fá mér heitt súkkulaði hjá þeim, sætt og gott í lokin. 

Páll Sigurðsson vínráðgjafi

Páll Sigurðsson
vínráðgjafi