Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Fréttaskot úr vínheimum

Víngerðir brenna í Kaliforníu

Svokallaður Glass eldur geisaði í september og október í Kaliforníu og lagði a.m.k. einar 24 víngerðir í Napa og Sonoma í rúst.  Eins og margir vita þá eru Napa og Sonoma virtustu víngerðarsvæði Kaliforníufylkis, en þau eru staðsett norður af San Francisco flóanum.

St. Helena er bær í norður hluta Napa dalsins, en norður af bænum og allt upp til Calistoga, sem er annar bær lengra til norðurs, hafa nú geisað miklir skógareldar sem hafa engu eirt og lagt víngerðir hverja af fætur annarri í rúst.  Eldarnir hafa geysað um allan dalinn yfir í Howell Mountain sem er austan meginn í þessum norður hluta Napa dals.  Á þessu svæði er að finna margar heimsfrægar víngerðir sem eru í hættu vegna eldanna.

Nýjustu fréttir úr héraðinu eru þær að margir vínbændur séu hreinlega búnir að gefa upp á bátinn að framleiða nokkurt vín þetta árið. Í einhverjum tilfellum munu búgarðarnir því ekki framleiða 2020 árgang. Þessar hörmungar eru svo auðvitað að koma ofan í glímuna við Covid-19.

 

2020  árgangurinn lofar góðu

Þær ánægjulegu fréttir berast nú, mitt í allri hörmungarumræðunni um veiruna ógurlegu, að ekki sé allt ömurlegt við þetta ár. Á Norður-Ítalíu virðist uppskeran ætla að verða mjög góð og líkt og annarsstaðar í stóru vínhéruðunum er aðal vandinn sá að það vantar hreinlega fólk til þess að vinna uppskeruna. Nú ætti hún að vera á fullu á norðurhveli jarðar. 

Í Bordeaux eru víngerðarmenn líka mjög bjartsýnir á að uppskera ársins verði í betri kantinum. Þar á bæ eru menn, með sína risa stóru búgarða, að lenda í því í fyrsta skipti að það er ekki nægur mannskapur til þess að vinna uppskeruna í höndunum, heldur verður að fara með stórtækar uppskeruvélar inn í garðana og tína þetta árið. Uppskeran gengur margfalt hraðar fyrir sig, en mun stærri hluti af berjunum fer til spillis.  Skýringin á því er einföld; vélarnar merja svo mikið af berjunum að safinn úr þeim fer til spillis og í tilfelli fínustu vínanna eru það ansi margar krónur í seldum flöskum sem þar glatast.

Vín í myrkri

Decanter tímaritið segir frá skemmtilegri framleiðslu í Slóveníu, þar sem hágæða freyðivín er framleitt í algeru myrkri. Þetta er ekkert grín, þar sem berjaklasarnir eru tíndir að nóttu til í kolniðamyrkri og sá sem tínir þarf að vera með sérstaka nætursjónauka til þess að sjá eitthvað til í víngarðinum.  

Berin eru síðan flutt í víngerðina undir svörtum dúk þannig að ekkert ljós komist að þeim.  Í víngerðinni er algert myrkur og berin pressuð og gerjuð í myrkrinu.

Og hvernig dettur mönnum svo eitthvað svonalagað í hug?  Jú árið 1989 birti Ann C. Noble, virtur vínfræðiprófessor, vísindagrein þar sem hún skýrði frá því hvaða slæmu áhrif flúorljós hefði á grunnvín freyðivína.  Hún komst að þeirri niðurstöðu að útfjólubláir geislar, frá bæði sólinni og ýmsum lömpum, hefðu áhrif á vínið og dempuðu náttúrulegt berjabragðið og mynduðu um leið hvimleiðan keim af fúlnuðu káli, fúleggjum og blautri ull.  Hver vill drekka slíkt?

Þessi framleiðsluaðferð er því notuð til þess að tryggja, eins og kostur er á, náttúrulegt bragð berjanna sem notuð eru í víngerðina.  Þegar vínið er síðan fullgerjað er það sett á flöskur til þess að gerja það aftur til að fá hina náttúrulegu freyðingu í vínið.  Ekki nóg með það heldur er flaskan sem vínið er sett á 99,8% kolsvart gler og vínið látið þroskast á flöskunum í myrkum kjöllurum framleiðandans.

Áður en vínið fer síðan á markað er flöskunni pakkað í svartan álpoka til þess að tryggja nú endanlega að ekkert ljós komist að víninu. Framleiðandinn beinir því síðan til vínþjóna að framreiða vínið í myrkri og helst í svörtum glösum.  

Þetta er nú með ferskari hugmyndum úr vínheiminum á þessum síðustu og verstu!

 


Gissur Kristinsson
vínráðgjafi