Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Glúten í vínum?

Finnst glúten í vínum? Stutta svarið er að ef glúten hefur komið við sögu í framleiðsluferli vínsins, þá finnst svo lítið magn í víninu að það er að öllu jöfnu vel undir þeim mörkum sem Evrópusambandið setur fyrir glútenfría matvöru. Það er kannski einmitt líka af þeirri ástæðu sem léttvín eru yfirleitt ekki merkt glútenfrí.  

En hvað er glúten?  

Glúten er prótín, eða eggjahvítuefni, sem finnst í korntegundum eins og til dæmis hveiti, byggi og rúg. Glúten í mat, t.d. brauði, gerir það að verkum að maturinn viðheldur lögun sinni og er virkni glútens því í raun og veru eins og nokkurs konar lím. 

Það er einmitt sá eiginleiki sem hefur orðið til þess að glúten er notað í vínframleiðslu. Augljóslega ekki til þess að líma vínið saman, heldur getur það verið notað í einstaka tilfellum til að líma saman tunnustafi í botni og loki. Hins vegar eru flestir tunnusmiðir búnir að skipta út þessari tegund af lími fyrir vax, sem er talið skila sér í einfaldari notkun og auknu hreinlæti. En jafnvel í þeim tilfellum þar sem vín hefur verið þroskað á tunnu sem hefur verið límd með slíku hveitilími, fyrirfinnst afar lítið glúten í endanlegu víni. Þá getur vín einnig í örfáum tilfellum verið hreinsað með efni sem inniheldur glúten. Um þau gildir það sama og vínin sem hafa verið þroskuð í tunnum; sáralítið glúten finnst í lokaafurðinni.  

Árið 2011 stóð Journal of Agricultural and Food Chemistry fyrir mælingum á nokkrum vínum sem höfðu verið hreinsuð með efni sem inniheldur glúten. Árið 2012 stóð Tricia Thompson, MS, RD og stofnandi GlutenFreeWatchdog.org, fyrir mælingum á vínum sem höfðu verið þroskuð í tunnum sem límdar voru saman með hveitilími. Niðurstöður beggja rannsókna voru sambærilegar; magn glútens var vel undir þeim mörkum sem stofnanir eins og Evrópusambandið setja fyrir glútenfría matvöru sem eru 20 ppm (5ppm er það minnsta sem er mælanlegt).    

Hvað geturðu gert ef þú vilt forðast vín sem gætu mögulega innihaldið snefil af glúteni? 

Að öllu jöfnu eru vín glútenfrí og því er það ekki sérstaklega merkt á flöskunum. Það er því nánast nauðsynlegt að þekkja til framleiðanda og jafnvel er þörf að spyrja sérstaklega hvort í einhverjum tilfellum vínin komist í tæri við glúten.  

Það er aðeins einfaldara að forðast vín sem hafa verið þroskuð í tunnum en öllu erfiðara að ætla sér að forðast vín sem hafa verið hreinsuð með efni sem inniheldur glúten. En það er þó, sem betur fer, mjög sjaldan raunin og ætti þetta í lang flestum tilfellum ekki að valda óþægindum eftir neyslu. 

 

Berglind Helgadóttir 
vínráðgjafi