Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Lífsvatnið

Orðið aquavit/akvavit kemur úr latínu (aqua vitae) og þýðir bókstaflega vatn lífsins og er fyrst getið á Norðurlöndunum á 14. öld.  Ákavíti eru vinsæl við hátíðartilefni í Skandinavíu og Norður-Þýskalandi.


Þessir drykkir eru eimaðir úr kartöflum eða korni, allt eftir því hvaða land á í hlut og verða samkvæmt lögum að bera einkenni af kúmeni eða dilli.  Samkvæmt hefð notast norskir framleiðendur við kartöflur, á meðan Danir og Svíar notast aðallega við korntegundir.  


Skandinavía spannar stórt svæði og eins og gefur að skilja eru mismunandi stílar á milli landa.  Svíar notast samkvæmt hefð meira við krydd eins og anís og fennel í sín ákavíti á meðan Danir notast við kúmen, dill og kóríander.  Norsk ákavíti eru síðan frábrugðin þeim sem koma frá öðrum Norðurlöndum að því leyti að flest þeirra eru látin þroskast á eik, oft í 1 ár eða lengur, og eru því gullin að lit með áberandi tóna og mýkt frá eikinni.  Við Íslendingar höfum hefðinni samkvæmt notast við kúmen til þess að krydda ákavítin okkar en framleiðendur eru einnig farnir að leika sér með eikarþroskun og önnur krydd, þó kúmenið sé ávallt í forgrunni, og verður spennandi að sjá og smakka hver þróunin á þessu sviði verður á komandi árum.


Maturinn sem fylgir t.d. jólum og páskum er oft fremur feitur, kryddaður og þungur í maga.  Kryddið og styrkleikinn í ákavítinu kemur þá sterkt til leiks. Það passar furðu vel með t.d. smurbrauði, síld eða reyktum og gröfnum laxi sem getur stundum reynst erfitt að para saman við aðra drykki og er því hinn fínasti kostur.


Eins og áður sagði eru þessir drykkir sérlega vinsælir á Norðurlöndunum, sérstaklega yfir jólin þar sem hefð hefur skapast hjá framleiðendum að gefa út sérstök jólaákavíti þar sem þeir leika sér t.d. með öðruvísi tunnuþroskun en þeir eru vanir og sterkari og einkennaríkari brögð.  Gaman að því.


                       Gleðileg jól!

Gísli Guðmundsson
Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi