Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Freyðivínskokteilar

Hvort sem sumarið kemur, eða ekki, þá ætti það ekki að aftra okkur frá því að dreypa á freyðivíni, þó svo að það sé vissulega aðeins ljúfara að hafa vermandi sólargeislana í andlitinu (og hífandi rokið í hárinu). 

Undanfarið hefur freyðivínssala aukist mikið og hefur þá sérstaklega borið á Prosecco æðinu sem vaðið hefur yfir alla heimsbyggðina. Nokkrar greinar er að finna um freyðivín hérna á Vínbúðarvefnum þar sem meðal annars er hægt að fræðast um ólíka stíla, framleiðsluaðferðir og sögu freyðivíns.

   

Hvað er gott að hafa í huga þegar á að blanda freyðivínskokteil?

Hann þarf ekki að hrista – nema markmiðið sé að skreyta loftið. Það skiptir því máli hvernig hellt er upp á kokteilinn og í sumum tilfellum þarf að hræra innihaldsefnin varlega saman með pinna eða skeið. 

Klaki, eða ekki klaki? Þar liggur efinn. Í sumum uppskriftum er gert ráð fyrir klaka, í öðrum ekki. Ef þið viljið hafa drykkinn ískaldan til síðasta dropa, þá getið þið sett klaka. Það er gott að hafa í huga að eftir því sem klakinn bráðnar, þynnir hann út drykkinn. Annars er best að hafa öll hráefnin, sem og glasið, nokkuð vel kælt áður en það er drukkið. 

Freyðivínskokteilar eru best framreiddir í freyðivínsglösum sem eru há og mjó, svokölluð flute glös. Lagið á glösunum gerir það að verkum að freyðingin helst betur í. Að sjálfsögðu er hægt að nota ýmis önnur glös sem eru fyrir hendi, til dæmis henta hvítvínsglös mjög vel. 

Sætt eða ósætt freyðivín? Í flestum uppskriftum er mælt með ósætu freyðivíni því önnur innihaldsefni kokteilsins eru oftar en ekki mjög sæt (jafnvel þó bragðið geti verið beiskt) og ef freyðivínið er líka sætt aukast líkurnar á því að drykkurinn verði of væminn. Ef hins vegar mottóið ykkar er, því sætara, því betra - þá getið þið valið hálfsæt til sæt freyðivín. Ef velja á annað freyðivín en sem lagt er til í uppskriftinni, t.d. annað en kampavín, eða Prosecco, þá er gott að velja vín sem eru framleidd með sambærilegri aðferð. Hægt er að skipta út kampavíni fyrir Crèmant eða Cava.  

 

Kampavínskokteill með koníaki 

Innihald: Bitter sykurmoli (fallegra að hafa hrásykursmola) 

20 ml Koníak 

Toppað með kampavíni/freyðivíni 

Aðferð: Sykurmolinn settur í glas og bitter hellt yfir. Koníaki er hellt í glasið og að endingu kampavínið.  

 

Bellini 

Innihald: 20 ml af ferskjusafa. Ef þið hafið tíma er frábært að búa til eigin, ferskan ferskjusafa.  

Prosecco eða annað ósætt freyðivín. 

Aðferð: Hellið ferskjusafa í glasið og fyllið svo glasið að ¾ með freyðivíninu. Hrærið hráefnunum varlega saman. Best er að gera það rétt áður en drykkurinn er borinn fram. 

 

Mimosa 

Innihald: ½ glas appelsínusafi 

½ glas Kampavín eða annað ósætt freyðivín.  

Aðferð: Hellið appelsínusafa til helminga í glas. Fyllið glasið með kampavíni.  Hægt er að setja örlítið af Grenadine sírópi fyrst í botninn á glasinu til að fá örlítinn rauðan lit. 

 

Kir Royale 

Innihald: Crème de Cassis (sólberjalíkjör) 

Kampavín eða annað ósætt freyðivín 

Aðferð: 2-3 teskeiðar af Crème de Cassis í freyðivínsglas. Fyllt með kampavíni. Hægt er að nota í þessa sömu uppskrift aðrar tegundir af berjalíkjör, eins og til dæmis hindberja- eða jarðarberjalíkjör. Einnig getur verið fallegt að setja nokkur ber út í kokteilinn.  

 

Svo er um að gera að vera hugmyndaríkur og prófa sig áfram með hráefni og skreytingar. Ef ykkur finnst kokteillinn of sætur er gott að bæta örlítilli sýru út. Það er gert til dæmis með því að kreista smá læm eða sítrónu út í drykkinn.  

 

Berglind Helgadóttir

Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi