Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Óvissuferð - Minna þekktar hvítar þrúgur

Mér barst til eyrna fyrir stuttu að vorið væri í nánd og að því kuldakasti loknu kemur sumarið og sólin vermir með allt umvefjandi hlýjum geislum. Þann stutta tíma sem sumarið ræður ríkjum hér á landi er tilvalið að færa sig úr þungum, rauðum vínum yfir í léttari hvítvín. Hvítvín úr þekktum þrúgum eins og Chardonnay, Pinot Grigio og Riesling eru vinsælar, en hvernig væri að fara í smá óvissuferð og prófa vín úr öðrum þrúgum?

Byrjum í Rueda á Spáni, en þar eru aðallega framleidd hvítvín. Vinsældir hvítvína úr þrúgunni Verdejo hafa aukist mikið á síðastliðnum árum. Vín úr henni minna stundum á Sauvignon Blanc, með keim af stikilsberjum og sólberjalaufi, svo geta þau einnig verið með peru-, epla- og melónutóna. Þessi vín eru frískleg og tilvalin sumarvín, bæði til að skála í og með skelfisk, grænmetisréttum og fiski.

Rias Baixas  er annað virt framleiðslusvæði hvítvíns, á norð-vesturhorni landsins, oft kallað græni Spánn. Loftslagið þar er svalara og  vætusamara en almennt á Spáni. Frá Rias Baixas koma hvítvín úr þrúgunni Albarino, en þau eru frábær með skelfiski og fiskréttum.

Ég forða mér úr rigningunni og fer til Ciro í Calabria héraðinu á Suður-Ítalíu. Það er ekki mikil vínframleiðsla á þessu svæði og fer lítið af framleiðslunni til útflutnings. Hér er það þrúgan Greco sem hefur fríska sítrus-, epla og perutóna. Hún hentar sérstaklega vel með sushi, skelfiski og fiskréttum.

Það er svolítið heitt þarna svo ég skelli mér norður til Soave í Veneto. Hvítvínin eru með þrúguna Garganega í meirihluta. Þessi vín eru oftast óeikuð, en betri vínin er þó oft látin í eikartunnur. Soave er skipt í tvö gæðasvæði; Soave og Soave Classico, en vínin frá því síðarnefnda eru í hærri gæðaflokki. Soave eru vín með marga eiginleika og henta hvort sem er án matar og með mat, fiskréttum og kjúklingi.

Úrvalið af hvítvínum frá Portúgal hefur aukist allverulega. Nú ætla ég að draga fram hvítvín frá Vinho Verde úr þrúgunni Loureiro. Þessi vín eru létt og sýrurík, stundum með smá kolsýru sem kitlar á tungunni. Þau eru góð sem hressandi kaldur svaladrykkur, eða með ýmsum léttum réttum.

Gruner Veltliner er hvíta þrúga Austurríkis. Þrúgan gefur af sér fínleg vín með léttum ljósum ávexti, kryddi eða pipar. Þessi vín henta með fiski og skelfiski og þau kröftugri með ljósu kjöti.

Frá Muscadet de sevre et maine í Frakklandi koma samnefnd vín úr þrúgunni Melon Blanc. Þessi vín eru talin henta einstaklega vel með kræklingi. Á flöskumiðanum stendur Sur Lie, sem þýðir að vínið hefur verið þroskað á dauðu geri sem gefur víninu flóknara bragð.

Að lokum má ég til með að nefna Gewurztraminer frá Alsace í Frakklandi. Þetta er þrúga sem ýmist er elskuð eða hötuð. Þeir sem hata hana segja að hún ilmi eins og lélegt ilmvatn eða þvottalögur. Aðdáendur líkja henni hins vegar við rósagarð, þar sem hunangið drýpur af hverju strái og kryddtónar og engifer kitla nasavængi. Ef þú ert í aðdáenda hópnum þá ert þú heppinn, því þessi vín ganga með ótrúlega fjölbreyttum mat. Sum þessara vína eru með smásætu, en öll hafa þau milda sýru.  Þau henta með ostum, sér í lagi gráðaostum og rauðmygluostum. Svo má einnig nefna ljóst kjöt og reykt kjöt.

Þær þrúgur sem ég hef nefnt hér eru bara brot af þeim þrúgum sem í boði eru. Ég vil endilega hvetja ykkur til að taka smá hliðarspor og prófa einhverjar af þessum minna þekktu þrúgum, ég er viss um að það gæti orðið skemmtilegt ferðalag. Í apríl og maí verður þeim þrúgum gert hátt undir höfði í Vínbúðunum, þar sem ætlunin er að fræða viðskiptavini um þær minna þekktu hvítu þrúgur sem hægt er að finna í hillum Vínbúðanna. Hér má nálgast fróðleik um þrúgurnar auk girnilegra uppskrifta frá veitingastaðnum Essensia af réttum sem henta sérlega vel að para með þeim. Nú ef ferðalagið stendur ekki undir væntingum, þá er alltaf hægt að hundskast heim í sitt Chardonnay. Njótið vel!

Páll Sigurðsson vínráðgjafi
Páll Sigurðsson
vínráðgjafi