Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Þýskaland

Bjór og októberfest kemur kannski fyrst upp í hugann þegar Þýskaland er nefnt en Þjóðverjar gera þó einnig ágætis vín. Framleiðsla vína er ekki ný af nálinni í Þýskalandi en eins og víðar í Evrópu má rekja einna elstu leifar víngerðar til veru Rómverja í landinu. Þegar kemur að þýskum vínum þekkjum við Íslendingar einna helst hálfsætu Riesling vínin frá Mosel. Þrátt fyrir að Riesling sé mest ræktaða og helsta þrúga Þýskalands er hún þó ekki sú eina, og vínviður er ræktaður á fleiri vínræktarsvæðum heldur en Mosel.

Þau sem talin eru að séu bestu vín Þýskalands koma frá görðum þar sem vínviður er ræktaður í bröttum hlíðum sem liggja að ám, eins og til dæmis Mosel og Rín. Þessir víngarðar eru svo brattir að illmögulegt er að nýta nokkurs konar vélarkost til að auðvelda ræktun og uppskeru.

Það er þó ekki vegna þess að Þjóðverjum finnist einstaklega skemmtilegt að gera vinnu sína erfiða. Heldur hafa þessar hlíðar og nálægðin við ána mjög mikilvæg áhrif á ræktunar- og þroskamöguleika berjanna sem þar vaxa og um leið á vínið sem úr þeim er gert.

Landamæri víngerðar færa sig stöðugt norðar vegna hlýnunar jarðar en lengi vel hefur Þýskaland verið talið á mörkum ræktanlegs víngerðarsvæðis, að minnsta kosti með góðum árangri. Af þeim ástæðum er nálægð við árnar mikilvægur þáttur í því að viðhalda nauðsynlegu hitastigi svo þrúgurnar nái nægilegum þroska til að hægt sé að gera úr þeim drekkanlegt vín. Vínræktarsvæðin í Þýskalandi eru þrettán talsins og dreifa sér um suður Þýskaland. Þau eru:

  • Ahr
  • Baden
  • Franken
  • Hessische Bergstrasse
  • Mittelrhein
  • Mosel
  • Nahe
  • Pfalz
  • Rheingau
  • Rheinhessen
  • Saale-Unstrut
  • Sachsen
  • Württemberg

Vínræktarsvæðin í Þýskalandi

Eins og komið hefur fram, þá er Riesling mest ræktaða þrúgan í víngörðum Þýskalands, en vínin úr þessari þrúgu eru þó ekki aðeins hálfsæt heldur spinna þau allan sætleikaskalann frá þurru og upp í dísæt vín. Og þar komum við að ákveðinni rúsínu í brätwurst pylsuendanum, en það er flokkunin á vínunum og þær mikilvægu upplýsingar fyrir neytandann sem koma fram á flöskumiðanum. Fyrir mörgum er gæðaflokkun þýskra vína flókin, sér í lagi þegar heitin eru farin að minna á íslenskar langlokur sem verða óþjálar í munnum erlendra. Til að gera langa sögu stutta þá eru kannski mikilvægustu upplýsingarnar á miðanum þær sem gefa til kynna hversu sætt vínið er og gæði þess.

Trocken þýðir þurrt og halbtrocken er smásætt. Gæðastiginn rís svo frá Kabinett til Spätlese (síðtíndir klasar) og þaðan upp í Auslese (vel þroskaðir, sérvaldir klasar). Þessir gæðaflokkar geta rokkað til á sætleikaskalanum en tímasetning á uppskeru klasanna skiptir máli fyrir bragðið. Ef berin fá að rúsínast aðeins á vínviðnum verða ávaxtatónar bragðpallettunnar þroskaðari og sætkenndari og mynda yndislegan samhljóm við ferska sýruna.

Beerenauslese, Eiswein og Trockenbeerenauslese (oft stytt í TBA af augljósum framburðarástæðum) eru svo einna sætust en Beerenauslese og TBA eru síðtínd (e. Late harvest) og sérvalin ber á meðan Eiswein er framleitt úr frosnum berjum. Vegna eðlis framleiðslu þessara vína eru þau oft og tíðum í dýrari kantinum og ekki eins algeng í hillum verslana.   

Fyrir utan Riesling má finna aðrar hvítar þrúgur eins og  Weissburgunder (Pinot Blanc), Grauburgunder (Pinot Gris), Silvaner og svo má ekki gleyma Müller-Thurgau, sem er undirstaðan í Liebfraumilch. Í Þýskalandi eru einnig framleidd áhugaverð rauðvín úr þrúgunum Dornfelder og Spätburgunder (Pinot Noir). Hægt er að lesa nánar til um Riesling vínin í frábærri grein sem Páll vínsérfræðingur skrifaði

 

Berglind Helgadóttir vínráðgjafi

Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi