Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Vín með hátíðarmatnum

Íbúar á norðurhjara veraldar eiga flestir það sameiginlegt að vilja dökk og kraftmikil rauðvín, hvort heldur þau eru höfð með mat eða ekki.  Á þessum árstíma gera flestir vel við sig í bæði mat og víni. Sé gengið út frá hnattstöðu, þá eru bragðmikil og kröftug vín í uppáhaldi þegar velja á eitthvað gott til að hafa með hátíðarmatnum.  Ég tók smá skoðunarferð um Vínbúðina til að finna út hvaða vín ég gæti hugsað mér með þeim fjölbreytta hátíðarmat sem er til boða á aðventunni og um hátíðarnar.

Ef við byrjum á forréttunum þá má nefna humar, með honum fer vel að hafa Chardonnay frá t.d. Chile, eða Chablis sem aldrei klikkar. Humarsúpa eða sjávarréttasúpa fer upp á hærra plan með freyðivíni eins og Cremant eða öðrum þurrum freyðivínum.  Hörpuskel er fínleg og með henni væri ég til í þurran Riesling frá Chile eða Chablis.
Reyktur og grafinn lax er vinsæll forréttur. Þurr eða hálfsætur Riesling virkar vel, með reykta laxinum kemur eikaður Chardonnay verulega á óvart. Þeir sem eru hrifnir af Sauvignon Blanc þá er það áhugaverður kostur. 

Kalkúnn sómir sér vel með bæði hvítu og rauðu. Chardonnay (helst eikað), Pinot Gris frá Alsace, þurr Riesling frá Alsace eða Chile. Pinot Noir frá Chile eða Ripasso frá Ítalíu.

Með önd væri gaman að prófa eitthvað annað en þetta klassíska Pinot Noir, þar má nefna Cotes du Rhone, Ripasso, Rioja Reserva, þurr, jafnvel hálfþurr Riesling og Pinot Gris frá Alsace.

Purusteik tilheyrir á þessum árstíma, með henni má velja Reserva rauðvín frá Spáni, Chile Pinot Noir, Primitivo frá Ítalíu. Þurran Riesling frá Alsace, Þýskalandi eða Chile.

Lambakjöt virðist laða það besta fram í flestum rauðvínum. Bordeaux kemur fyrst upp í hugann, þá Rioja Reserva og rauðvín úr Cabernet Sauvignon. 
Með nautasteik henta kröftug rauðvín, þá er gott að leita til Chianti Classico, Ribera del Duero, Cabernet Sauvignon og Shiraz frá nýja heiminum.

Þá er það villibráðin; hreindýr, villigæs og rjúpa biðja um bragðmikil rauðvín.  Bordeaux sem vaxið hefur og dafnað á góðu sloti. Vín frá Rhone og Suður Frakklandi. Ribera del Duero, Rioja, Amarone, Shiraz eða Cabernet Sauvignon frá nýja heiminum. 

Með hamborgarhrygg virka bæði hvít og rauð vín. Pinot Gris og þurr eða hálfsætur Riesling. Pinot Noir frá nýja heiminum og svo vil ég benda á vinsæl rauðvín frá Ítalíu, svokölluð Appassimento.

Hangikjötið, já ég veit að þið eruð orðin leið á þessu M & A þvaðri, svo ég held mig við bara við vín. Byrjum á hvítvínum, að mínu mati henta þau betur. Ef þið hafið ekkert á móti hálfþurrum til hálfsætum þýskum Riesling þá eru þetta vín sem takast á við reyk og saltbragðið með stæl, þurr Riesling og Pinot Gris henta einnig. Af rauðvínum er vert að skoða  Ripasso og Appassimento, Crianza frá Rioja eða mjúkan Merlot frá nýja heiminum.
Svo bendi ég á leitarvélina á vinbudin.is, þar er auðvelt að finna vín sem henta með matnum og svo getið þið séð í hvaða Vínbúð vínið fæst.

Njótið vel!

Páll G. Sigurðsson
vínráðgjafi

Páll G. Sigurðsson vínráðgjafi