Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Rabarbara kokteilar

Nú þegar haustið hellist yfir er blússandi uppskera í mörgum matjurtagarðinum. Rabarbari er auðveldur í ræktun og ljúffengur í allskyns bakstur, sultur og grauta. Fáir vita þó að hann er einnig tilvalinn í girnilega haustkokteila. Upplagt er að nota mintu úr garðinum líka, en hún er einnig afar auðveld í ræktun. Hér fylgja uppskriftir af ferskum og öðruvísi kokteilum sem auðvelt er að útbúa óáfenga útgáfu af. Njótið vel!      

Rabarbara Mojito

10 mintulauf
½ límóna, skorin í báta
6 cl rabarbarasíróp
3 cl ljóst romm
3 cl Triple Sec
3 cl sódavatn (sprite eða 7-up)

Setjið límónubátana og mintuna í longdrink glas og merjið. Bætið síðan romminu, Triple Sec, rabarbarasírópinu og sódavatninu út í. Fyllið glasið næstum upp með muldum klaka og hrærið örlítið. Skreytið með límónusneið eða afskorningi af rabarbarastilk. Einnig má gera óáfenga útgáfu, þá er áfenginu einfaldlega sleppt.

 

Rabbarbara Kir Roya

2 cl rabarbara síróp
9 cl freyðivín

Rabarbara sírópi er hellt í kampavínsglas og fyllt upp með freyðivíni. Einnig má gera óáfenga útgáfu, þá er freyðivíninu skipt út fyrir sódavatn, Sprite eða Seven up.


Rabarbarasíróp

5 dl rabarbari (ferskur eða frosinn) skorinn í bita
1 dl sykur
1 dl vatn
½ dl sítrónusafi

Setjið allt í þykkbotna pott, látið suðuna koma upp og lækkið síðan hitann. Látið malla í um 20 mínútur, hrærið í af og til.  Látið sjóða þar til rabarbarinn er orðinn mjúkur og vökvinn hefur þykknað svolítið. Takið af hitanum, látið kólna aðeins og bætið því næst sítrónusafanum í.

Sigtið síðan í gegnum fínt sigti og grisju í skál, pressið með sleikju eða sleif til að ná sem mestu sírópi.
Hellið síðan sírópinu í hreina flösku. Sírópið er einnig ljúffengt ofan á ís. 

Páll Sigurðsson
vínráðgjafi