Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Mars Vínblað komið út

13.03.2015

Nýtt Vínblað er komið út en blaðið er fyrsta tölublað ársins.  Meðal efnis í blaðinu er grein eftir Pál vínráðgjafa, Súkkulaði og rauðvín, súperfæði.  Þar fjallar Páll um samspil súkkulaðis og rauðvíns og hvað ber að hafa í huga við val á rauðvíni með súkkulaði.  Páll segir beiskju í súkkulaði hafa m.a. espandi áhrif á tannínin í rauðvíninu og gott sé að velja vín með lítil eða mild tannín.  Páll skrifar einnig greinina Rauðvín og páskalamb og ræðir um þau vín sem eiga vel með lambakjöti.

 
Í blaðinu er að finna grein eftir Dofra Hermannsson, verkefnisstjóra markaðsmála hjá Íslenska gámafélaginu, sem ber heitið Maíspokinn fellur alltaf í góðan jarðveg.  Þar ræðir Dofri um plastmengun í höfunum sem er orðin að risavöxnu umhverfisvandamáli því plastið eyðist í raun aldrei.  Hann segir að æ fleiri borgir og sveitarfélög geri sér grein fyrir þessu og bendir m.a. á átakið í haust í Stykkishólmi sem Vínbúðin í Stykkishólmi tók þátt í og sýndi vel hvað auðvelt er að nota margnota poka eða maíspoka í staðinn fyrir burðarpoka úr plasti.  Sigrún Ósk aðstoðarforstjóri kemur einnig inn á þetta málefni í leiðara blaðsins þar sem hún segir það markmið Vínbúðanna að draga úr notkun plastpoka og hafi margnota pokar verið boðnir til sölu í öllum Vínbúðum undanfarin þrjú ár.  Á næstu vikum verða svo maíspokar boðnir til sölu í öllum Vínbúðum sem valkostur á móti hefðbundnum plastpokum.  
 
Gissur vínráðgjafi segir fréttir úr vínheiminum og tekur einnig fyrir páskabjórinn 2015.  Júlíus vínráðgjafi ræðir um vorveislur og útskriftir og kokteilsíða blaðsins er að þessu sinni helguð vinningskokteilum í Reykjavík Coktail Weekend 2015.  Vörulistinn er svo að sjálfsögðu á sínum stað.  Allt þetta og meira til er að finna í nýjasta hefti Vínblaðsins sem hægt er að nálgast frítt í næstu Vínbúð, en einnig er hægt að skoða það hér á vefnum.