Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Vínnámskeið

14.12.2004

Tvö fyrirtæki bjóða upp á vínnámskeið með áherslu á vín og mat.

Þann 15. og 16. desember næstkomandi mun VIN.IS bjóða upp á vínsmökkunarnámskeið að Skútuvogi 5. Námskeiðið er um 2 klst og hefst klukkan 20.00 bæði kvöldin. Aðaláherslan á námskeiðinu verður hvernig para eigi jólamat og vín en einnig verður farið yfir sögu vínræktunar og landafræði  vínræktunarsvæða. Leiðbeinendur munu svo leiða smökkun á vel völdum vínum. Almennt verð fyrir námskeiðið er 2.500 kr en 2.000 kr fyrir meðlimi VIN.IS. Hægt er að skrá sig á námskeiðið í síma 540-9000 eða með því að senda tölvupóst á vin@karlsson.is

Vínskóla Eðalvína var hleypt af stokkunum þann 23. september s.l. með námskeiðinu Matur og vín. Áætlað er að hafa vínnámskeið vikulega í vetur. Aðal þemað er Matur og vín, þar sem farið er vandlega yfir gagnvirkni víns og matar, matartegundir eru teknar fyrir og athugað hvernig vínin breytast. Námskeiðin hafa verið mjög vel sótt og fleiri þemu munu bætist við. Framhaldsnámskeið um mat og vín verður haldið þar sem bragðlaukarnir og minnið verður þjálfað með blindsmakki. Syrpa námskeiða verður haldin þar sem fjallað verður um eina þrúgu en á mismunandi svæðum, eitt svæði tekið fyrir (t.d. Ítalía) með sérfræðingi í vínum frá því landi. Leiðbeinendur eru Þorfinnur Guttormsson, Jón Páll Haraldsson og Dominique Plédel Jónsson, sem hafa öll mjög viðtæka reynslu af vínheiminum og búa yfir mikilli þekkingu.

Þátttakendur fá afhenta miða sem gildir sem 20% afsláttur á mörgum veitingahúsum í miðborginni, afslátturinn gildir fyrir mat og vín sama kvöld og námskeiðið er haldið.

Námskeiðin hefjast kl 18 og standa yfir í rúmann klukkutíma. Þau kosta kr. 1500.-