Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Desember Vínblað komið út

09.12.2014

Vínblaðið 4. tbl. 12. árg. desember 2014Nýtt og glæsilegt Vínblað er komið út en blaðið er fjórða tölublað ásins.  Meðal efnis í blaðinu er grein eftir Pál vínráðgjafa, Silfur hafsins, þar sem hann ræðir um síldina og gefur góð ráð varðandi útvötnun krydd- og saltsíldar, legi og marineringar og eins hvaða snafsar eru góðir með síldarréttunum.  Páll skrifar einnig greinina Skálað í kampavíni en margir vilja kveðja gamla árið og fagna því nýja með Champagne, aðrir kjósa önnur ódýrari freyðivín. 

Í blaðinu er einnig að finna grein eftir Reyni Kristinsson, stjórnarformann Kolviðarsjóðsins, sem ber heitið Sýnum samfélagslega ábyrgð og verndum andrúmsloftið.  Þar ræðir Reynir um það hvernig fyrirtæki og einstaklingar geti unnið á móti hlýnun jarðar m.a. með því að kolefnisjafna losun sína.  

Gissur vínráðgjafi segir fréttir úr vínheiminum og tekur einnig fyrir jólabjórinn 2014.  Danska vínsnjallforritið Vivino er einnig til umfjöllunar í blaðinu í grein Sigurpáls Ingibergssonar, gæðastjóra, og Sigurðar Þórs Gunnlaugssonar, vínráðgjafa, en Vivino er gagnvirkt samfélag vínáhugamanna um allan heim sem byggir á gagnagrunni og snjallsímaforriti þar sem notendur geta skráð og lesið umsagnir um vín. 

Júlíus vínráðgjafi ræðir um jólaglögg og barþjónar á Kol Kitchen Bar deila nokkrum áramótakokteilum.  Vörulistinn er svo sjálfsögðu á sínum stað.  Allt þetta og meira til er að finna í nýjasta hefti Vínblaðsins sem hægt er að nálgast frítt í næstu Vínbúð.