Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Leyndardómar hillumiðans

20.04.2012

hillumiðanum eru upplýsingar með táknum og texta sem segja til um hverju megi búast við, eða hvernig vínið er. Það þarf ekki annað en líta á táknin til að átta sig á því hvort vínið er létt, miðlungs eða bragðmikið.

 

Leyndardómar hillumiðans

Táknin á þessum hillumiða (alifugl, lamb, grís og ostur) segja okkur að vínið sé ekki kröftugt, frekar í miðjunni. Tákn með nauti eða hreindýri gefa til kynna kröftug vín á meðan tákn með freyðivínsglasi, fisk og gulrót gefa til kynna að vínið henti fyrir létta rétti eða sem söturvín, sé alifuglatáknið til viðbótar má búast við að vínið hafi aðeins meiri fyllingu.

Litur víns getur gefið nokkrar vísbendingar um vínið; því ljósari sem liturinn er því léttara víni má reikna með. Með dekkri lit má svo búast við meiri fyllingu og bragðkrafti, einnig má búast við meiri tannínum í dekkri rauðvínum. Með aldrinum fá hvítvín oft á sig gullinn eða brúnleitan blæ. Ung rauðvín eru oft með fjólubláan lit sem svo breytist í rúbín-kirsuberjarautt og með aldrinum verða þau múrsteins- til ryðrauð.

Fylling segir til um hvernig vínið er í munni, þunnt eða þykkt, en vín getur haft létta fyllingu upp í mikla. Til samanburðar getum við sagt að mjólk hafi meðalfyllingu, rjómi mikla, þétta eða mjúka fyllingu og undanrenna létta fyllingu. Vín með létta fyllingu eru góð söturvín og henta með léttum réttum. Flest vín hafa meðalfyllingu og eru þau einna heppilegust til drykkjar með mat. Vín með mikla fyllingu eru síðan orðin kröftugri og þurfa bragðmikinn og kröftugan mat ef þau eiga ekki að yfirgnæfa matinn. Þá getum við horft á alkóhólið en léttu vínin eru oftar með lægra alkóhól, með hærra alkóhóli verður fyllingin meiri.

Sætt eða þurrt. Þurrt, hljómar einkennilega enda er hugtakið fengið að láni úr öðrum tungumálum. Þurrt merkir að vínið er ósætt eða lítið eftir af ógerjuðum sykri, síðan koma fleiri stig eftir því sem sykurhlutfallið eykst og reynum við að koma því til skila með þessum orðum: Þurrt, sætuvottur, hálfþurrt, hálfsætt, sætt og dísætt. Sæt og dísæt vín eru í flokki eftirréttavína. Hálfþurr og hálfsæt vín kannist þið svo eflaust við í mörgum þýskum hvítvínum. Lágt alkóhól getur gefið vísbendingu um að vínið sé hálfsætt.

Sýra gefur víninu ferskleika og byggingu og þarf sýran að vera í jafnvægi við ávöxt og alkóhól í víninu – Mikil sýra í víni gerir það hvasst eða súrt. Fersk eða frískandi sýra í víni gerir það aftur á móti að góðu matarvíni. Hafa má í huga að sýra undirstrikar bragð, salat er til dæmis óspennandi án dressingar. Við notum svo þessi orð til útskýringar á sýrumagni: lítil sýra, milt, miðlungs eða fersk sýra, mikil sýra eða sýruríkt, mjög mikil eða súrt. Vín með miðlungs eða ferska sýru eru á því bili að flestir ættu að geta notið þeirra. Þó vín sé sýruríkt þarf það ekki að vera vont, heldur finnur maður bara aðeins meir fyrir sýrunni og oft er það bara hressandi.

Tannín – Lítil, miðlungs, mikil, mild, þurrkandi, hrjúf, mjúk eða þroskuð. Tannín er það sem gefur víninu þessa þurrkandi áferð, svipað og þegar bitið er í grænan banana, eða bitið í vínberjastein. Tannín og litur kemur frá hýði berjanna, við rauðvínsgerð er hýðið látið gerjast með til að fá lit, og tannínin fylgja með. Með dekkri lit má búast við meiri tannínum. Tannín er einskonar geymsluefni, það er meðal annars þeim að þakka að mörg rauðvín geta geymst í áratugi. Þol fólks gagnvart tannínum er mjög misjafnt, sumir setja tannín ekkert fyrir sig og finnst þau jafnvel góð á meðan öðrum finnst þessi þurrkandi áhrif í munni frekar óþægileg og truflandi. Vín með lítil eða mild tannín, ættu að henta þeim sem vilja ekki stöm vín. Flest vín hafa miðlungs eða þroskuð tannín hér erum við á miðjusvæði og tannínin á þægindamörkum, ef þau eru orðin mikil, þurrkandi eða hrjúf, þá má búast við vínum fyrir reynslubolta.

Á eftir þessum upplýsingum kemur svo upptalning á þeim ilmi og bragði sem við skynjum í víninu, eins og sítrus, epli, hunang, vanilla eik, kirsuber, brómber, jörð, tóbak, sveit og ýmislegt annað sem ekki er pláss til að telja upp. ilmur upp úr vínglasi er ekki bara af berjum heldur finnur maður oft ilm sem minnir mann á eitthvað, til dæmis kaffi, en sá ilmur kemur frá ristuðum eikartunnum. Ilmur og bragð koma sem sagt ekki bara frá berjunum, heldur einnig frá ýmsum þáttum í víngerðinni.

 Páll Sigurðsson, vínráðgjafi

 

 

 

 

 

 

Páll Sigurðsson,
vínráðgjafi

Grein birt í Vínblaðinu, 10.árg. 1.tbl. mars 2012