Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Loftslagsmarkmið ÁTVR til 2030

01.07.2016

Þrír fyrstu mánuðir þessa árs slógu öll hitamet með látum, segir Alþjóðaveðurfræðistofnunin. Varar hún við því að loftslagið sé að „breytast með fordæmalausum hraða.“

Því þurfa stjórnvöld, fyrirtæki og almenningur að grípa til öflugra mótvægisaðgerða. ÁTVR er eitt af 103 fyrirtækjum sem tekur  þátt í metnaðarfullu verkefni með Festu og Reykjavíkurborg um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum.

Við ætlum að sýna samfélagslega ábyrgð í verki með því að:

  • draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
  • minnka myndun úrgangs
  • innleiða sjálfbærni í ferla fyrirtækisins
  • mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta

40% samdráttur í útblæstri bifreiða

Markmið ÁTVR er að draga úr notkun bifreiða og nýta vistvænustu bíla sem verða í boði í framtíðinni. Stefnt er að því að útblástur minnki um 40% fyrir árið 2030 miðað við árið 2015.  Eða 3,2% að meðaltali á ári.

Í úrgangsmálum er markmiðið um endurvinnsluhlutfall 91% og stefnt að því að það verði 98% árið 2030.  Urðaður úrgangur var um 30 tonn á síðasta ári stefna á að fara niður í 8 tonn eða 75% samdráttur.

ÁTVR kolefnisjafnar allan beinan útblástur, 102 tonn og flug 25 tonn, alls 127 tonn.  Þar sem flug er keypt frá þriðja aðila þá verður til jákvætt kolefnisfótspor  (e positive carbon footprint). Með því stundum við sjálfbæran rekstur.

Útblástur bifreiða til 2030 


Myndin sýnir losun frá fyrirtækinu vegna reksturs bifreiða. Á tímabilinu er stefnt að því að allir fólksbílar verði vistvænir og sendiferðabílar. Bifreiðar ÁTVR losuðu 102 tonn CO2-ígildi árið 2015. Dísilolía sem brennd var er 41.077 lítrar og óskandi að jarðefnaeldsneyti verði ekki notað árið 2030. Það er best geymt í jörðinni.

Hækkunin árið 2016 er vegna stærra svæðis sem keyrir til. Á móti minnkar keypt þjónusta og útblástur hjá þriðja aðila. Vöxtur í lítrum áætlaður 2% á ári. Flutningabílar myndu brenna dísilolíu en bæta nýtingu og minnka útblástur um 3% á ári. Ekki gert ráð fyrir að þeir fari á aðra orkugjafa. Fólksbílum og sendiferðabílum yrði skipt út fyrir vistvæna bíla, rafmagn, vetni, metan eða metanól þegar hægt er.

Úrgangur – 75% samdráttur 

Hjá ÁTVR féll til um 300 tonn á síðasta ári.  Markmiðið var 90% endurvinnsluhlutfall og það náðist 90,3% var niðurstaðan.  Langtímamarkmiðið er 98% endurvinnsluhlutfall árið 2030.


Árið 2015 voru tæp 30 tonn urðuð með tilheyrandi loftslagsmengun.   Náist 98% endurvinnsluhlutfall árið 2030 verður hlutfallið 8 tonn af úrgangi sem fer í urðun. Losun CO2-ígildi vegna urðunar fer úr 23 tonnum niður í 6 tonn.  Eða um 8% að meðaltali á ári.
Til samanburðar var endurvinnsluhlutfallið í nýliðnum mars 93% en markmiðið, 91% náðist ekki í janúar og febrúar vegna viðhaldsframkvæmda á Akranesi.

 

Útgangur, markmiðssetning til 2030


Reiknað er með 2% árlegum vexti og hlutfall verði hækkað jafnt og þétt á tímabilinu, sama hlutfall tvö ár í senn.  Framleiðendur vöru eru mikið að vinna í að minnka og létta umbúðir og vonandi verður vöxturinn minni.


Starfsmenn ÁTVR vilja vera fyrirmynd í samfélagslegri ábyrgð og mynda jákvætt kolefnisfótspor því við eigum aðeins eina jörð. Starfsmenn ÁTVR – Vínbúðanna taka undir með óskarsverðlaunahafanum Leonardo DiCaprio.

„Loftslagsbreytingar eru raunverulegar. Tökum þessari plánetu ekki sem sjálfsögðum hlut.“