Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Tryggja átti varðveislu innréttinganna á Seyðisfirði

11.12.2007

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um innréttingar í fyrrum vínbúð ÁTVR að Hafnargötu 11 á Seyðisfirði vill ÁTVR koma eftirfarandi á framfæri:


ÁTVR harmar ef innréttingarnar hafa orðið fyrir einhverju tjóni við niðurtektina og vill fullvissa Seyðfirðinga og aðra Íslendinga um að fyrirtækið mun sjá til þess í samráði við heimamenn að innréttingunum sé fullur sómi sýndur og koma af myndarskap að endurgerð þeirra og uppsetningu þegar þar að kemur.


Viðræður hafa staðið yfir í langan tíma milli fjármálaráðuneytis og Seyðisfjarðarbæjar um að bærinn yfirtaki húsið og innréttingarnar.  Viðræðurnar hafa ekki skilað árangri og engin lausn var í sjónmáli. Í samráði við fjármálaráðuneytið tók ÁTVR þá ákvörðun að fjarlægja innréttingarnar og koma þeim í örugga geymslu. Meðan húsinu og innréttingunum er ekki ráðstafað ber ÁTVR ábyrgðina á að varðveita innréttingarnar með sem tryggustum hætti. Óverjandi var að mati ÁTVR að láta þær standa í lélegu og yfirgefnu húsi árum saman vegna hættu á óbætanlegu tjóni. Tilgangur ÁTVR með niðurtektinni var því einungis sá að tryggja örugga varðveislu innréttinganna. Þær eru menningarsöguleg verðmæti sem ekki má geyma við ófullnægjandi og hættulegar aðstæður. 


Húsið að Hafnargötu 11 er orðið mjög gamalt og þarfnast sárlega viðhalds. Raflagnir og vatnslagnir eru gamlar og lélegar, gluggar ónýtir og ytra byrði þess og þak lélegt. Frá því ÁTVR hætti rekstri í húsinu um mitt ár 2004 hefur það grotnað enn frekar niður.


Viðræður eru þegar hafnar milli fjármálaráðuneytisins, Minjaverndar og Seyðisfjarðarkaupstaðar um að Minjavernd taki við húsinu og vonast aðilar eftir því að farsæl lausn finnist á allra næstu dögum. Á meðan verður ekkert  aðhafst frekar í málinu.

Ívar J. Arndal
Forstjóri ÁTVR