Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Meðferð umsókna um sölu á tóbaki með einkennandi bragðefnum

17.05.2013

Meðferð umsókna um sölu á tóbaki með einkennandi bragðefnum

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) hefur í samræmi við tilmæli velferðarráðuneytisins og markmið tóbaksvarnarlaga nr. 6/2002 og laga nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, um að draga úr skaðlegum áhrifum tóbaksneyslu, vernda ungt fólk gegn neyslu tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum, ákveðið að taka að svo stöddu ekki til sölu tóbaksvörur sem hafa einkennandi lyktar- eða bragðefni, önnur en þau sem þegar er hefð fyrir sölu á hérlendis. Tilefnið er aukin tilhneiging tóbaksiðnaðarins til að höfða til nýrra, einkum yngri, tóbaksneytenda með því að bragðbæta vörur sínar, m.a. með ýmiss konar ávaxta- og sælgætisbragði.

Í frumvarpi velferðarráðherra um breytingu á lögum um tóbaksvarnir og lögum um verslun með áfengi og tóbak sem ekki fékkst afgreitt fyrir þingfrestun, er mælt fyrir um að bannað verði að flytja til landsins, framleiða og selja tóbaksvörur sem sérstaklega er beint að ungu fólki m.a. með tilliti til bragð- og lyktarefna. Ráðuneytið hefur tilkynnt ÁTVR að það muni fylgja því fast eftir að frumvarpið fái afgreiðslu á Alþingi hið allra fyrsta og farið þess á leit að ÁTVR hafi hliðsjón af efni og markmiði frumvarpsins við afgreiðslu umsókna um sölu á tóbaki, en fyrirtækinu ber lögum samkvæmt að fara að stefnu stjórnvalda í starfsemi sinni.

Ennfremur hefur ráðuneytið vakið athygli á því að í farvatninu er ný tóbaksvarnartilskipun Evrópusambandsins, sem mælir fyrir um að tóbaksvörur með einkennandi bragði verði að meginstefnu bannaðar á EES svæðinu. Bann samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar verður lágmarkskrafa, en aðildarríkjum ESB og EFTA er og verður heimilt að mæla fyrir um strangari kröfur en ráð er fyrir gert í tilskipuninni. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti tilskipunina í árslok 2012, en áætlað er að hún verði afgreidd af Evrópuþinginu og ráðherraráði sambandsins á árinu 2014.