Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

ÁTVR endurvinnur plast

22.01.2016

ÁTVR og Oddi hafa tekið höndum saman í verkefni sem lýtur að endurvinnslu á notuðu plasti sem fellur til í starfsemi ÁTVR. Markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs. Verkefnið er liður í því að minnka umhverfisfótspor, en bæði fyrirtækin skrifuðu nýverið undir yfirlýsingu um loftslagsmál ásamt fleiri íslenskum fyrirtækjum.

Oddi mun annast endurvinnslu á plasti úr polyethylene efni (PE) og notar hráefnið til framleiðslu á burðarpokum og sorppokum. Einkum er um að ræða svokallaða strekkifilmu sem sett er utan um vörubretti, allt að 20 tonn á ári.

Í frétt frá Odda kemur fram að fleiri íslensk fyrirtæki mættu gera betur í þessum málaflokki: „Í hreinskilni sagt eru það ákveðin vonbrigði hversu fá íslensk fyrirtæki flokka plast á ábyrgan hátt, svo nýta megi það til endurvinnslu hér á landi. ÁTVR er hins vegar metnaðarfullt fyrirtæki í umhverfismálum og lítur á þetta verkefni sem hluta af sínu forystuhlutverki á því sviði. Í því samhengi má nefna að endurvinnsluhlutfall hjá fyrirtækinu er liðlega 90% í dag. Þetta er mjög spennandi verkefni og lofar góðu,“ segir Júlíus Örn Ásbjörnsson, verksmiðjustjóri plastframleiðslu Odda.