Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Eingöngu tregbrennanlegar til sölu

19.03.2012

Eingöngu tregbrennanlegar til söluUndanfarið hafa öll sígarettubréf verið að breytast í tregbrennanlega gerð (RIP) samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Í tregbrennanlegar sígarettur eru notuð bréf sem er þannig samsett að hætta á að kvikni út frá þeim verður óveruleg ef viðkomandi hættir að draga að sér reykinn, t.d. ef sofnað er útfrá þeim. Logandi sígaretta sem dettur eða glóð út frá sígarettunni getur orsakað mikil bál á skömmum tíma, en að meðaltali deyja tveir til þrír á viku vegna bruna af völdum reykinga í ríkjum ESB landa. Markmiðið með þessum nýju kröfum er þar af leiðandi að minnka líkur á eldsvoðum og dauðsföllum.

Eins og fjallað hefur verið um í fréttum hafa ÁTVR og Neytendastofa haft mismunandi álit á aðferð við innleiðingu staðlanna. Í nóvember sl. tilkynnti Neytendastofa að Evrópustaðallinn um tregbrennanlega vindlinga gengi í gildi hér á landi 17. nóvember 2011. ÁTVR ákvað að stöðva hvorki sölu né innkalla þá vöru sem þegar var í söluferli á þeim tíma á þeim forsendum m.a. að ekki hafði verið haft lögboðið samráð við hagsmunaaðila og fyrirvarinn á gildistöku á boðuðum staðli var mjög stuttur. ÁTVR  leitaði í kjölfarið til innanríkisráðuneytisins til að fá úrskurð um hvernig bæri að innleiða staðlana.  Ráðuneytið vísaði málinu til Áfrýjunarnefndar neytendamála, sem vísaði málinu frá sér.  ÁTVR hefur því sent málið á ný til umfjöllunar hjá innanríkisráðuneytingu til að fá endanlegan úrskurð um hvort rétt hafi verið staðið að innleiðingu staðalsins hér á landi.

 

Í dag eru eingöngu tregbrennanlegar sígarettur til sölu hjá ÁTVR.