Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Ritun sögu ÁTVR að ljúka

12.04.2012

Ritun sögu ÁTVR að ljúkaÁ árunum 2004 til 2005 var farið að huga að ritun sögu ÁTVR. Kynslóðaskipti voru að verða í fyrirtækinu og ljóst að mikil þekking á fyrri rekstrarárum ÁTVR var við það að hverfa. Ekki mátti bíða mikið lengur ef á annað borð ætti að halda saman og varðveita sögu þessa merka fyrirtækis.

Rifja má upp að starfsemi ÁTVR hófst árið 1922 og teygir sig yfir mikil umbrotaár í sögu þjóðarinnar. Sérstaða ÁTVR er mikil og er fyrirtækið vel þekkt í hugum Íslendinga. Frá stofnun hefur ÁTVR verið eini aðilinn sem hefur haft heimild til þess að selja almenningi á Íslandi áfengi í smásölu.  Reksturinn hefur oft verið umdeildur.  Margir hafa talið reksturinn nauðsynlegan á meðan aðrir hafa haldið því fram að löngu sé orðið tímabært að leggja stofnunina niður og fela einkaaðilum starfsemi ÁTVR. 
 
Eftir nánari skoðun var ákveðið að ráðast í heimildaöflun og undirbúa ritun sögunnar. Undirbúningur hófst árið 2004 og leitað var að einstaklingum sem mögulega gætu tekið verkið að sér. Jafnframt var gerð gróf tíma- og kostnaðaráætlun.  Upphaflega var gert ráð fyrir að gefa sögu ÁTVR út á bók og fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að bókin gæti komið út á árinu 2007, en á því ári varð ÁTVR 85 ára.  Kostnaðaráætlunin hljóðaði upp á  14, 4 milljónir fyrir verkið.  Í upphafi var leitað til þriggja höfunda, Hildigunnar Ólafsdóttur, Sumarliða Ísleifssonar og Ómars Kristmundssonar. Ómar þurfti að hætta við og í staðinn kom Sverrir Jakobsson. Fljótlega kom í ljós að tímaramminn sem áætlaður var fyrir verkið var of þröngur. Heimildaöflun var tímafrekari en búist hafði verið við og víða reyndust gloppur í gögnum. Furðu vel tókst samt að draga saman upplýsingar. Á hrunárunum var verkið í hægagangi og tíminn notaður meðal annars til þess að taka viðtöl við starfsfólk. Höskuldur Jónsson, fyrrverandi forstjóri, veitti mikla aðstoð við undirbúning verksins, en hann býr yfir umfangsmikilli þekkingu á fyrri rekstrarárum ÁTVR. Öll hans störf sem og annarra starfsmanna fyrirtækisins sem komnir voru á eftirlaun og komu að gagnaöflun voru unnin í sjálfboðavinnu.
 
Ný lög um verslun með áfengi og tóbak voru sett um mitt ár 2011 og tóku þau gildi þann 10. júní 2011. Nýju lögin fela í sér talsverða breytingu á laga- og starfsumhverfi ÁTVR. Versluninni eru sett sérstök markmið að lögum og jafnframt birt ný áfengisstefna stjórnvalda. Nýju lögin leggja margvíslegar skyldur á herðar ÁTVR umfram það sem áður var. Á meðal helstu nýmæla er að lögfest er að ÁTVR skuli haga starfsemi sinni í samræmi við áfengisstefnu stjórnvalda hverju sinni. Þá má nefna að rík áhersla er lögð á að fyrirtækið starfi með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.  Aðal markmið áfengisstefnunnar eru að stýra neyslu áfengis, vernda ungt fólk gagnvart áfengi, bann við auglýsingum og markaðstengdri starfsemi á áfengi og áhersla á heilsugæslu, forvarnir og skaðsemi áfengis. Nauðsynlegt þótti að saga ÁTVR endurspeglaði þessar breytingar og næði fram yfir gildistöku nýju laganna. Var því ákveðið að bæta þessum nýja kafla við texta bókarinnar.
 
Nú er stefnt að því að ljúka vinnu við sögu ÁTVR á þessu ári, en á árinu 2012 er fyrirtækið 90 ára. Allur texti bókarinnar er tilbúinn og prófarkalestri lokið. Nokkur vinna er eftir við myndefni og lokafrágang. Verkið er enn vel innan upphaflegrar kostnaðaráætlunar og nemur heildarkostnaður nú um 10,8 milljónum króna.