Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

ÁTVR heimilt að hafna áfengisblönduðum orkudrykkjum

04.12.2012

EFTA dómstóllinn dæmdi á dögunum að ÁTVR hefði verið heimilt að hafna sölu á áfengum drykkjum sem innihéldu koffín. Það var fyrirtækið Vín Tríó ehf, sem stefndi íslenska ríkinu en Héraðsdómur Reykjavíkur óskaði eftir ráðgefandi áliti dómstólsins vegna málsins.
Vín Tríó vildi að ÁTVR tæki drykkinn Mokai Cider til reynslusölu en því var hafnað á þeim grundvelli að drykkurinn innihélt koffín. ÁTVR sagði svo upp vörukaupasamning við fyrirtækið og hætti í kjölfarið að selja drykkinn Cult Shaker sem hafði verið fáanlegur í Vínbúðum frá árinu 2006. Ástæðan var sú sama, þ.e. áfengið innihélt koffín.

Báðar ákvarðanirnar voru byggðar á reglum sem veita ÁTVR heimild til að hafna sölu á vöru sem inniheldur koffín eða önnur örvandi efni. Vísað var til rannsókna sem bentu til að neysla áfengis, blönduðu örvandi efnum, gæti leitt til aukinnar ölvunar, einkum meðal yngri aldurshópa. Efnin hefðu þau áhrif að neytandinn yrði síður var við ölvun sína og væri líklegri til þess að neyta áfengis í ríkari mæli og auka þar með hættuna á alvarlegum afleiðingum.

EFTA dómstólinn komst að þeirri niðurstöðu að ÁTVR væri heimilt að slíta samningnum í ljósi þess að engar samsvarandi innlendar framleiðsluvörur eru til sölu hér á landi og að bannið er ekki til þess gert að vernda slíkar vörur með einhverjum hætti.

Í kjölfar álitsins verður málið tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur sem mun kveða upp dóm í málinu.