Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Niðurstaða EFTA dómstólsins

11.12.2012

EFTA dómstóllinn veitti í dag ráðgefandi álit vegna ákvæða í íslenskum rétti sem fylgt hefur verið við val ÁTVR á áfengi til sölu í verslunum fyrirtækisins. Niðurstaða dómsins horfir mjög til skýringar á þeim reglum sem hafa heimilað ÁTVR eða skyldað til að hafna áfengum vörum vegna texta og myndmáls á umbúðum áfengisins. Með áliti EFTA dómstólsins fæst í fyrsta skipti úr því skorið að viðeigandi ákvæði íslensks réttar falla undir tilskipun nr. 2000/13/EB um samræmingu aðildarríkja um merkingu kynningu og auglýsingu matvæla en ekki meginmál EES samningsins líkt og áður hefur almennt verið talið.


Merkingatilskipunin heimilar aðildarríkjum að banna verslun með áfengi samkvæmt innlendum ákvæðum um merkingu og kynningu vörunnar, sem gera strangari kröfur en tilskipunin gerir ráð fyrir, að því gefnu að ákvæðin grundvallist á því að tryggja almannaheilbrigði. Almennt þurfi þá að fylgja tilteknum málsmeðferðarreglum sem kveðið er á um í tilskipuninni, sem aðallega lúta að tilkynningarskyldu til Eftirlitsstofnunar EFTA, til þess að slík ákvæði öðlist formlega gildi í samræmi við EES rétt.


ÁTVR undirstrikar að heilbrigðis- og lýðheilsusjónarmið hafa markað grundvöllinn að vöruvali fyrirtækisins, sem verið hefur í fullu samræmi við gildandi réttarheimildir hverju sinni. Það er hins vegar álit EFTA dómsins nú að nánar tiltekið ákvæði íslensks réttar, um að hafna beri vörum sem innihaldi gildishlaðnar og ómálefnalegar upplýsingar og brjóti í bága við almennt velsæmi, uppfylli ekki skilyrði tilskipunarinnar um vernd almannaheilbrigðis.


Aftur á móti kveður dómurinn með afdráttarlausum hætti upp úr um að gildandi ákvæði í íslenskum rétti um að ÁTVR skuli ekki taka við vörum sem gefa til kynna að áfengi auki líkamlega, andlega, félagslega eða kynferðislega getu séu í fullu samræmi við EES rétt.
ÁTVR mun í kjölfar ráðgefandi álits EFTA dómstólsins fara yfir gildandi réttarheimildir um vöruval fyrirtækisins; lög og reglugerðir, til þess ganga úr skugga um að framkvæmd vöruvalsins samræmist evrópska regluverkinu en hugsanleg endurskoðun gildandi réttar í ljósi álitsins fellur í hlut löggjafans og framkvæmdavaldsins.