Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Vínbúðunum veitt Hjólaskálin

25.09.2015

Hjólafærni á Íslandi og Landssamtök hjólreiðamanna veittu nýverið Vínbúðunum Hjólaskálina, en hún er veitt þeim sem hlúð hafa vel að hjólreiðum í sínu starfi og verið hvetjandi og öðrum góðum fyrirmynd í því að tileinka sér hjólreiðar sem almennan ferðamáta.

Vínbúðirnar hafa markvisst unnið að því að hvetja starfsfólk til að ferðast til og frá vinnu hjólandi, gangandi eða nota almenningssamgöngur.


Öllu starfsfólki er boðinn persónulegur samgöngusamningur og stefna fyrirtækisins er að við allar verslanir Vínbúðanna sé gott að koma hjólandi.

Á sumrin eru 34% starfsfólks Vínbúðanna á einkabíl og 44% á veturna,en til samanburðar kemur fram í ferðavenjukönnun frá 2014 að 75% Reykvíkinga nota einkabíl í ferðir á milli staða.

Vínbúðin tók virkan þátt í verkefninu Hjólabætum Ísland, en eitt af verkefnum þess er að innleiða „Hjólavæna vottun vinnustaða“. Vínbúðin hefur þegar mátað sig inn í staðlana sem þar liggja að baki og ljóst er að vottun Vínbúðarinnar nær nú þegar hæsta skori.

Höfundur og hönnuður Hjólaskálarinnar er Inga Elín Kristinsdóttir myndlistamaður. Það er Kópavogsbær sem gefur skálina.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, afhenti Sigurpáli Ingibergssyni, gæðastjóra Vínbúðarinnar, Hjólaskálina fyrir hönd Landssamtaka hjólreiðamanna og Hjólafærni á Íslandi.

Vínbúðirnar eru stoltar af þessari viðurkenningu og munu áfram hvetja starfsfólk sitt til að ferðast hjólandi eða á annan umhverfisvænan máta.