Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Annríki fyrir verslunarmannahelgi

24.07.2014

Annríki fyrir verslunarmannahelgi

Vikan fyrir verslunarmannahelgi er að jafnaði ein annasamasta vika ársins í Vínbúðunum.  Í fyrra var metár í komu viðskiptavina í Vínbúðirnar þessa tilteknu viku en rúmlega 128 þúsund viðskiptavinir heimsóttu Vínbúðirnar frá mánudeginum 29. júlí til laugardagsins 3. ágúst.  Tæplega 727 þúsund lítrar af áfengi seldust þessa viku en til samanburðar seldust 438 þúsund lítrar vikuna 15. til 20. júlí.  Að jafnaði er salan vikuna fyrir verslunarmannahelgi 50-60% meiri en í hefðbundinni viku í júlí.

Flestir viðskiptavinir koma í Vínbúðirnar á föstudeginum fyrir verslunarmannahelgina, en hlutur fimmtudagsins er þó alltaf að stækka og var hann í fyrra með um 3/4 af sölu föstudagsins.  Flestir viðskiptavinir koma á milli 16 og 18 á föstudeginum fyrir verslunarmannahelgina og lætur nærri að 13 þúsund viðskiptavinir komi í Vínbúðirnar þessar tvær annasömustu klukkustundir dagsins.  Þar sem álagið er mest er ekki óalgengt að grípa þurfi til þess ráðs að hleypa viðskiptavinum inn í hollum.  Við viljum því benda þeim sem vilja forðast langar biðraðir að huga að því að skoða heimsókn í Vínbúðirnar á öðrum opnunartímum vikunnar.

Söluþróun sumarsins bendir jafnvel til þess að viðskiptavinafjöldi fyrir verslunarmannahelgi í ár verði svipaður eða jafnvel aðeins meiri en í fyrra.  Hvort að salan verði meiri eða minni en fyrir ári fer þó að einhverju leyti eftir veðurhorfum. Undirbúningur er nú í fullum gangi þannig að hægt verði að taka vel á móti viðskiptavinum þessa annasömu viku.

Í Vínbúðunum er opið samkvæmt venju um verslunarmannahelgina á föstudeginum og laugardeginum en lokað á sunnudag og mánudag, sem er frídagur verslunarmanna.  Nánari upplýsingar um opnunartíma Vínbúðanna má sjá hér: desktopdefault.aspx/tabid-5/

Sala í þús,lítra fyrir verslunarmannahelgin og í hefðbundinni viku til júlí 2013

Hvenær koma viðskiptavinir í Vínbúðirnar (fjöldi viðskiptavina)