Þrúgur frá Frakklandi

Gewürztraminer
Gewürztraminer þrúgan gefur allt sem hún á í vínin sín.  Þetta er án nokkurs vafa sú þrúgutegund sem gefur af sér mestan ilm og kryddað bragð um leið, enda heitir hún (ef við þýðum yfir á íslensku) Kryddaði Traminerinn.  Annað hvort elskar fólk þessa flóknu angan og bragð eða hatar, það virðist ekki vera neitt millibil til.

 

Melon de Bourgogne (Muscadet)  
Melon de Bourgogne (Muscadet) er eina þrúgutegundin sem notuð er í vínin Muscadet Sévre et  Maine, sem eru ákaflega létt og sýrurík, framleidd meðfram ánni Loire í nágrenni við borgina Nantes í Frakklandi.  Í Biscaya flóanum, í næsta nágrenni, eru einhver þekktustu skelfiskmið veraldar.  Þetta er vínið sem Frakkar nota með kræklingnum og ostrunum.
 

 

Semillon  
Þrúguna Semillon hafa margir reynt að rækta, en einhverra hluta vegna gefist upp.  Á einum stað í heiminum er Semillon þrúgan þó ennþá í stóru hlutverki.  Það er í Bordeaux héraðinu í suðvestur hluta Frakklands.  Þar er þrúgan uppistaðan í einhverjum frægustu desertvínum veraldar, sem kennd eru við hreppinn Sauternes.