Islay viskí

Nú þegar vetrarlægðir byrja að hamra á hverju húsi landsmanna er ekki seinna vænna að huga að þeim hágæða drykkjum sem geta hlýjað okkur um hjartarætur og leitt hugann að einhverju öðru en kuldanum sem fylgir vetri. Brandí, sér í lagi koníak, hefur verið vinsæll kostur hér á landi um árabil, sérstaklega yfir hátíðirnar.  Viskí hefur einnig verið vinsælt val, sérstaklega á undanförnum árum þar sem við höfum séð mikla aukningu í sölu og áhuga á skoskum einmöltungum.  Þar má einmitt finna einn af einkennaríkustu brenndu drykkjum veraldar, en það eru viskíin sem koma frá eyjunnni Islay sem liggur af vesturströnd Skotlands, um 40 km frá norðurströnd Írlands.


Það voru einmitt írskir munkar sem báru með sér eimingarlistina til Islay á 14. öld.  Eyjan hafði í raun allt til að framleiða hágæða viskí; gott vatn, ár, vötn, bygg og mór.  Þegar skattur var svo lagður á viskí í Skotlandi árið 1644, hjálpaði það viskíframleiðendum að skattheimtumenn varla dirfðust að stíga fæti á eyjuna þar sem talið var að fólkið sem byggði hana væru hálfgerðir villimenn.  Af þeim sökum framleiddu eyjamenn, óáreittir, töluvert magn viskís.


Það sem er svo einkennandi fyrir bragð og ilm Islay viskís er einmitt fyrrnefndur mór (þó með undantekningum).  Þessi mór eða svörður er í raun samanpressaðar plöntuleifar og myndast í vatnsríkum jarðvegi.  Kolefnisinnihald mós er hátt, eða um 60% og var hann notaður sem eldsneyti og til eldunar á ákveðnum skóglausum svæðum á Írlandi, Skotlandi og Íslandi (enda er Ísland ákjósanlegur staður til framleiðslu á viskíi). Þurrkaður mór er mjög eldfimur og var hann því einnig notaður til þurrkunar á möltuðu byggi.  Þessi móreykur skilar í viskíið ilmi og bragði sem tengja má við joð, kaðal, kolareyk, steinefni, gamlar bækur, tjöru og annað sem í fyrstu hljómar kannski ekki svo heillandi en í bland við eikaráhrifin (skosk viskí þurfa að vera þroskuð á eik í að minnsta kosti 3 ár) myndar slíka heild að fáir drykkir standast samanburð.


Það er kannski ekki algengt að para saman viskí og mat en þessir drykkir geta reynst afar vel ef paraðir með alls kyns osti, súkkulaði og eftirréttum.  Síðan getur það auðvitað verið mjög áhugavert, því það er svo stutt í jólin, að prufa reykt Islay viskí með hangikjötinu. Því ekki.

 

Gísli Guðmundsson vínráðgjafi
Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi