IPA

-Ekki vera svona bitur


Ýmislegt bendir til þess að bjórsmekkur neytenda og framleiðanda sé að ganga í gegnum breytingaskeið, sér í lagi hvað varðar gríðarlega beiska IPA bjóra. Reyndar virðist það fara eftir því hvar maður er staddur í heiminum þar sem vinsældir og „trend“ eru að sjálfsögðu breytileg eftir löndum og heimsálfum. Undanfarin ár hafa framleiðendur verið að færa sig frá ofurbeiskjunni sem var og er einkenni margra IPA bjóra frá vesturströnd Bandaríkjanna  og nýjasta æðið (ef ennþá er hægt að kalla nýtt) hér heima er að sjálfsögðu NEIPA (New England IPA). Þessir bjórar eru safaríkir, suðrænir, sætkenndir, ljúffengir, og auðdrekkanlegir (kannski aðeins of auðdrekkanlegir þrátt fyrir nokkuð hátt áfengisinnihald) og auðvitað smá beiskir IPA bjórar sem líta út eins og skýjaðir ananas/appelsínusafar, gullfallegir og eiga að sjálfsögðu að drekkast eins ferskir og mögulegt er, þar sem ilmurinn og bragðið af humlunum sem notaðir eru sem bragðgjafar dofna með tímanum. Í dag gengur maður vart inn á ölstofu þar sem a.m.k. einn slíkur er ekki á boðstólum. Íslensku handverksbrugghúsin hafa nánast öll hafist handa við að brugga þessa týpu af IPA, marga hverja með frábærum árangri.

En hvað verður þá um hinn gamla góða West Coast IPA?  Ætla framleiðendur hér heima alfarið að snúa baki við honum og einblína einungis á sniðugar útfærslur á hinum sætkennda og skýjaða NEIPA stíl? Líklegast ekki, en auðvitað eru brugghús á Íslandi að hlusta á markaðinn og brugga það sem fólkið vill. En allt er gott sem endar vel (smá grín) og svo virðist sem þróunin erlendis sé sú að sumir eru komnir með hálfleið á NEIPA og vilja fá gamla góða West Coast IPA eða eitthvað annað í staðinn. Eitt af því nýjasta í IPA fréttum er síðan svokallaður Brut IPA. Það eru IPA bjórar þar sem notast er við ensím, amílasa, við framleiðsluna sem gerir það auðveldara fyrir gerið að éta upp sykurinn í maltvökvanum. Niðurstaðan er mjög þurr, temmilega beiskur (22-25 IBU líklegast) og ljós IPA bjór. Hvað svo sem af því verður þá eru spennandi tímar framundan hjá bjórframleiðendum, bæði hér á landi sem og erlendis.

 

Gísli Guðmundsson vínráðgjafi
Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi