Héluð froða

Það er ákaflega skemmtileg upplifun að njóta freyðivíns, þau henta við næstum öll tækifæri. Mér þykir einnig gaman að horfa á vínþjóna opna og bera freyðivín fram. Ég sat eitt sinn fjölrétta kvöldverð í Rheims, þar sem kampavín var með hverjum rétti, öll þjónusta var í toppklassa og gaman að fylgjast með þjónunum bera fram mat og kampavín, hvert öðru betra. Það er jú ekkert einfalt að skenkja kampavíni í glös þegar þú þarft að standa meira en armlengd frá glasinu og passa upp á að ekki freyði upp úr og ekki dropi falli á dúkinn. Það sem stendur einna hæst upp úr eftir þennan kvöldverð, fyrir utan matinn og vínið, var þegar eftirrétturinn var borinn inn. Með honum var borið fram hálfþurrt kampavín og það sem vakti athygli mína var hvernig þjónarnir fóru að því að láta hálfþurrt kampavínið passa með sætum ábætinum, því algengast er bera fram sæt vín með sætum eftirréttum. Til að aðlaga hálfþurrt kampavínið kom vínþjónninn með frosthélaða karöflu, sem hann svo umhellti kampavíninu í. Tilgangurinn með umhellingunni var að minnka freyðinguna og þar með fá vínið til að virka sætara. Viti menn þetta virkaði, ísköld staðreynd! 


Ég skála svo í kampavíni fyrir öllum lærðum þjónum og sérstaklega þeim sem leggja á sig að fræðast um vín.

Páll Sigurðsson
vínráðgjafi

Páll Sigurðsson vínráðgjafi
Páll Sigurðsson
vínráðgjafi