Þroskaðir bjórar

Bíddu, á ég ekki að drekka þetta strax ?

Nú þegar „sumarið“ er á síðustu metrunum áður en haustlægðirnar byrja að hamra á gluggum landsmanna er kannski verðugt að kíkja niður í kjallara (í mínu tilviki geymslu) og athuga hvort ekki leynast nokkrir bjórar sem yljað geta manni um hjartarætur. Ferskur, léttur Pilsner, Pale Ale og IPA bjórarnir sem runnið hafa niður kverkarnar yfir sumartímann heyra nú brátt sögunni til og maður byrjar að horfa til bjóra sem koma af stað hárvexti á bringunni. Þrátt fyrir að bjór sé, rétt eins og léttvín, í flestum tilvikum ferskvara þá eru allnokkrir stílar sem þola geymslu vel og margir batna með tímanum. Þá er nú gott að eiga nokkra slíka í kjallaranum sem hafa fengið að hvíla í góðan tíma og eru orðnir nægilega þroskaðir.

En vín er mun betri kostur til þess að geyma og þroska, ekki satt? Alls ekki. Sú staðreynd að gæði bjóra (auðvitað með undantekningum) sveiflast ekkert allt of mikið frá einni lögun til næstu, gerir það að verkum að þeir sem safna bjór geta nánast gengið að því vísu að vera með sömu vöruna í höndunum ár eftir ár. Aftur á móti geta vín breyst umtalsvert milli árganga. 

En hvaða bjórarstílar geymast vel ? Örfáar grundvallareglur ber að hafa í huga við val á bjór sem ætlað er til geymslu. Í flestum tilvikum ætti bjórinn að vera í kringum og yfir 7-8% alc þar sem alkóhól virkar eins og rotvarnarefni og hægir á þroskunarferlinu. Eins dofnar þessi upphaflega alkóhóllykt, sem oft virkar mjög óheillandi, með tímanum og breytist í eitthvað sem minnir á ávexti eins og apríkósur og sætkennda karamellu lykt. Sumir súrbjórar, eins og Gueuze, þurfa ekki á þessu háa áfengisinnihaldi að halda þar sem sýran og bakteríur sem eru í bjórnum koma í stað áfengismagnsins. Sætleiki og hvernig týpa af malti er notað er eitthvað sem hafa ber í huga. Sykur er auðvitað náttúrulegt rotvarnarefni og dökkt malt gefur af sér sérrí,  portvíns og súkkulaðikeim við þroskun. Bjórar eins og Imperial Stout og Imperial Porter eru því mjög góðir kostir. Bjórar sem einkennast af mikilli kryddaðri gerlykt, eins og til dæmis sterkir belgískir klausturbjórar og Weisenbock, þróa með sér lykt sem minnir á tóbak, leður og vanillu. Reyktir bjórar, sér í lagi þeir sem koma frá Bamberg í Þýskalandi, þróast á svipaðan hátt þar sem reykurinn mildast með tímanum.

Rétt eins og með vín þá geymast bjórar best við nokkuð kalt hitastig, 8-12 gráður u.þ.b.  Ísskápur er fínn og vínkælir er auðvitað besti kosturinn, en fyrir okkur sem búum ekki við þann lúxus er best að finna þann stað í húsinu sem sólin skín ekki, að það sé nokkuð svalt og að hitastig haldist stöðugt.

Svo er bara að koma bjórunum fyrir í geymslunni og gleyma þeim í örfá ár. 

 


Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi