Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Súlfít í vínum

Súlfít eða öðru nafni brennisteinsdíoxíð (SO2) er rotvarnarefni sem hefur að geyma andoxunar- og bakteríudrepandi eiginleika. Súlfít má finna náttúrulega í t.d. svörtu tei, hnetum og eggjum. Einnig er því oft bætt við í matvörur eins og t.d. gosdrykki, sultur, pylsur og þurrkaða ávexti.


Súlfít er mikið notað í vínframleiðslu og gegnir því mikilvæga hlutverki að sporna gegn oxun í vínum og viðhalda ferskleika þess. Ekki má gleyma því að súlfít myndast einnig náttúrulega í vínum í gerjunarferlinu, þannig að öll vín innihalda lítið magn af súlfíti.


Súlfít er ofnæmisvaldur og þarf því að merkja það sérstaklega á umbúðum vína sem innihalda meira en 10mg/l. ÁTVR mælir súlfít í þeim vínum sem eru til sölu í Vínbúðunum. Þau vín sem eru með meira súlfít heldur en EU matvælareglugerðin segir til um er hafnað. Eins tryggir gæðaeftirlit ÁTVR að allar vörur sem innihalda súlfít séu merktar.


The World Health Organization (WHO) hefur sett viðmið varðandi inntöku á súlfíti. Stofnunin mælir með að hámarks dagskammturinn af SO2 sé 0,7 mg á hvert kg líkamsþunga. 

 

MAGN SÚLFÍTS EFTIR TEGUNDUM AF VÍNI

Í Evrópsku matvælareglugerðinni eru reglur um hversu mikið magn af súlfíti vínin mega innihalda. Magn súlfíts í vínum er mismunandi eftir því hvort um hvítvín, rósavín, rauðvín eða sætvín sé að ræða. 

Hvítvín og rósavín sem innihalda minna en 5 g/l af sykri innihalda ekki náttúruleg andoxunarefni þar sem þau eru ekki látin vera í snertingu við hýðið eftir pressun. Þessum vínum er því hættara við oxun og þurfa því meiri súlfít viðbót. EU reglugerðin leyfir að hámarki 200 mg/l fyrir þessi vín. Þau vín sem hafa verið vottuð sem lífræn innan Evrópusambandsins og innihalda minna en 2g/l af af sykri mega innihalda að hámarki 150 mg/l af súlfíti.
 
Rauðvín sem innihalda minna en 5g/l af sykri þurfa venjulega minna súlfít en hvítvín vegna þess að þau innihalda meira af náttúrulegum tannínum/andoxunarefnum. Minna súlfít þarf því til að vernda vínið við vínframleiðslu og þroska. EU reglugerðin leyfir hámarkið 150 mg/l en aðeins 100mg/l fyrir þau vín sem eru með lífræna vottun og innihalda minna en 2 g/l af sykri. 

Sætvín þ.e. vín sem innihalda meira 45g/l af sykri innihalda stærstu skammtana af súlfíti og nær alveg upp í 400 mg/l. 

Gunnþórunn Einarsdóttir
sérfræðingur