Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Sangría, sumar og sól

Það verða kannski ekki margir á sandölum og ermalausum bol á Spánarströndum í sumar en þó við förum kannski ekki til Spánar er hægt að fá Spán til sín, alla leið í glasið, jafnvel þó sólin láti ekki sjá sig. Sangría er svalandi drykkur sem lítur líka vel út. 


Hvað er gott að hafa í huga við val á áfengi í sangríu?
Eins og í öllum vel gerðum drykkjum, eða réttum ef út í það er farið, er mikilvægt að hafa jafnvægi milli sætu og sýru í huga. Það þýðir að ef mikil sæta er í áfenginu, eða ávöxtunum, sem er notað er mikilvægt að bæta við sýru á móti. Það er gert til dæmis með því að nota sítrusávexti, eins og appelsínu, sítrónu, límónu eða greip, allt eftir smekk hvers og eins.

Sangría kemur frá Spáni og því liggur beinast við að ágætt sé að velja spænskt rauðvín, þó er það ekki nauðsynlegt. Það sem er gott að hafa í huga er að velja rauðvín sem er létt og ávaxtaríkt. Ef rauðvín með örlítilli sætu er valið er ágætt að hafa í huga að önnur innihaldsefni séu ekki yfirdrifin sætu svo drykkurinn verði ekki væminn.

Sangría bragðbætt með sterku áfengi
Sé notað sterkt áfengi er gott að hafa í huga bæði bragðeinkenni þess og sætu. Á hillumiðum Vínbúðanna eru lýsingar á bragðeinkennum og ef þau eru ákjósanleg fyrir sangríuna, þá er um að gera að velja það. Með krydduðu rommi koma mikil bragðeinkenni barkarkrydda, umfram klassísk einkenni mólassa og karamellu. Brandí gefur meiri bragðeinkenni þurrkaðra ávaxta og rúsína. Á hillumiðunum má líka fá upplýsingar um sætu, sem skiptir máli fyrir samsetninguna. Einnig er mjög hentugt að slá inn leitarorð eins og barkarkrydd, kanill, rúsínur eða annað sem þið mynduð vilja sækjast eftir í leitarvélina á vefnum okkar og sjá hvaða möguleika þið fáið upp. 


Uppskriftir
Ýmsar útgáfur og uppskriftir eru til á netinu og er skemmtilegast að leita og skoða hinar ýmsu uppskriftir. Að öllu jöfnu hugsum við fyrst um rautt vín þegar við hugsum um sangríu en prófið að leita líka að hvítri sangríu. Svo er um að gera að prófa sig áfram. En hafið áfram í huga að ef þið bætið vökva með kolsýru, hvort sem það er gosdrykkur eða freyðivín, þá er gott að hafa sykurmagn í huga og velja tegund í samræmi við það.
Til þess að allt smelli svo saman er kjörið að bera sangríuna fram í fallegri könnu með áhaldi til að varna því að allir ávextirnir detti úr í eitt glas. Svo skemmir auðvitað ekki fyrir að útbúa sólarstemmningu með skreytingum og setja sumarleg lög á fóninn. 

 


Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi