Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Gjafahugleiðingar

Þegar líða fer að jólum fara mörg, ef ekki flest okkar að huga að jólagjöfum ársins.  Ef hugmyndin er að gefa eitthvað fallegt úr Vínbúðunum þá er vert að minnast á sterku vínin sem prýða hillurnar þar.
 
Sterku vínin hafa jú ávallt verið vinsæl en hafa þó sérstaklega undanfarinn áratug fest sig í sessi sem gæðadrykkir í hugum fólks.  Ávallt er að bætast í vöruval Vínbúðanna af þessum drykkjum, blessunarlega, sér í lagi þegar hanastélamenningin er í uppsveiflu um þessar mundir.
Viskí og koníak eru á meðal vönduðustu drykkja veraldar og seljast undantekningalaust vel fyrir jólin en hér á eftir koma nokkrar laufléttar (en samt sterkar) gjafahugmyndir úr öðrum flokkum sterkra vína.
 
Gin
Gin er í sinni einföldustu mynd spíri kryddaður með einiberjum og þessi einiber skulu vera aðaleinkenni ginsins.  Gin er þó miklu meira en þessi einfalda útskýring gefur til kynna.
 
Hægt er að skipta gini í tvo meginflokka; blandað gin (compounded) og eimað gin (distilled gin).  Blönduð gin eru gin þar sem annað hvort náttúrulegum jurtum og kryddi hefur verið bætt út í spírann sem bragðgjafa, eða notast hefur við bragðkjarnaolíur (nature identical essences). Ódýr gin eru oft framleidd með þessari aðferð, en þó eru til allmörg hágæða gin í þessum flokki.
 
Eimuð gin eru framleidd með þeim hætti að spírinn er eimaður aftur með bragðgjöfunum, sem þá annað hvort liggja með spíranum í eimingarkatlinum, eða er komið fyrir í körfu sem staðsett er fyrir ofan vökvann (eða bæði) og gufan/spírinn grípur einkenni þessa bragðgjafa er hann rís í gegnum körfuna við eimingu.  Seinni aðferðin þykir fínni og skilar af sér flottari einkennum í lokadrykkinn.  Eins og með allt eru hins vegar margar undantekningar á því.  London (dry) gin er svo útfærsla á eimuðu gini þar sem engu öðru en vatni má bæta við spírann eftir seinni eimingu.
Klassískir gin kokteilar eru Gin & Tonic, Martini og Negroni.
 
Tekíla er þjóðardrykkur Mexíkó og hefur fengið uppreist æru á síðustu árum. Þessi drykkur hefur löngum verið tengdur við partí og læti, en þegar betur er að gáð verður flestum það ljóst að hér er um að ræða vandaðan og flókinn spíra.
 
Tekíla má aðeins framleiða úr bláum Agave (Agave tequilana Weber var. azul) á ákveðnum svæðum í Mexíkó (Jalisco, Nayarit, Michoacán, Guanajuato og Tamaulipas).
 
 
Það tekur Agave plöntuna um 7 ár að ná fullum þroska og uppskera á sér yfirleitt stað þegar plantan er 7-10 ára gömul.  Laufin eru því næst skorin af og kjarnarnir (piñas) svo bakaðir í um 36-48 tíma.  Þar á eftir eru kjarnarnir kramdir/hakkaðir og vökvinn svo gerjaður og eimaður.  Til eru tveir meginflokkar tekíla; 100% Agave Tequila og Tequila (eða Mixto).  Mixto má innihalda upp að 49% af öðrum gerjanlegum sykurtegundum og þykir því 100% Agave Tequila vandaðri vara.
 
Nokkrar stílar finnast í báðum flokkum:
  • Blanco/silver/plata – hvítt tekíla sem ekki hefur verið þroskað í tunnum (eða tunnuþroskað í mjög stuttan tíma og litur svo fjarlægður með síun).
  • Gold – sama aðferð og blanco en litað með karamellulit.
  • Reposado – tunnuþroskað í þrjá til sex mánuði.
  • Añejo – tunnuþroskað í minnst eitt ár.
  • Extra Añejo – tunnuþroskað í minnst þrjú ár.
Tunnuþroskuð tekíla eru flott ein og sér á meðan þau sem sjá stuttan eða engan tíma í tunnu eru frábær grunnur í klassíska kokteila eins og Margarita, Tequila Sunrise og Bloody Mary.
 
Grappa
Grappa er spíri sem á rætur sínar að rekja til Norður-Ítalíu, enda framleiddur þar síðan á 14. öld.  Þar til nýlega var þetta talinn hrár og óspennandi drykkur.  Eins og áðurnefndir drykkir er grappa svo miklu meira en það.
 
Grappa er framleitt úr hrati vínberja.  Það tekur um 15 kg af hrati til að framleiða eina flösku af grappa og þessi 15 kg af hrati koma frá 100 kg af vínberjum! 
Lítið þarf út af að bregða til að óvelkomin bragðeinkenni taki sér bólfestu í hratinu og þurfa því framleiðendur að vera snöggir til og koma því strax á eimingarstöð eftir að búið er að ná safanum úr berjunum. Þegar eiming á sér stað er svo gufu hleypt gegnum hratið sem grípur áfengið og þéttist svo aftur í vökva.
Einkenni berjanna skína í gegn í grappa og ef hratið er ekki í góðum gæðum finnst það fljótt í bragði.
 
Klassískt grappa er drukkið eitt og sér eftir máltíðir en einnig eru til tunnuþroskuð eintök sem eru ótrúlega skemmtilegir drykkir.  Grappa er mjög viðkvæmur drykkur og er því oftast ekki þroskaður í tunnu til margra ára því tunnuáhrifin myndu gjörsamlega yfirgnæfa spírann.
Grappakokteilar sem vert er að prufa eru til dæmis Grappa Spritz og Grappino.
 
 

Gísli Guðmundsson
vínráðgjafi