Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Ending opinna flaskna

Hversu lengi má geyma vín í opnum flöskum?
Sérrí geymist mjög vel eftir að flaska hefur verið opnuð. Undantekning eru fino sérrí sem á að drekka fersk og innan fárra daga. Flest önnur sérrí, t.d. Cream má segja að þoli að standa árum saman í opinni flösku.

Portvín geymast nokkuð vel, misjafnlega þó. Tunnuþroskuð portvín (tawny) hafa legið árum saman í tunnum í snertingu við súrefni, og geta staðið á flösku afar lengi. Rauð portvín, t.d. árgangsportvín (vintage) hafa þroskast í flösku í súrefnissnauðu umhverfi. Þess vegna eru þau upp á sitt besta tiltölulega fljótt eftir opnun (þau geta þurft að anda í nokkra klukkutíma). En svona vín eru massíf og harðger og þó þau missi eitthvað af sínum gæðum, þá eiga þau samt svo mikið inni að þau eru engan vegin ónýt og smakkast oft vel dögum og vikum eftir að flaska hefur verið opnuð.

Berjalíkjörar eru ferskastir og bestir þegar flaska er nýopnuð. Oftast eru þeir þá dökkbláir en þeir geta orðið brúnleitir með aldri og snertingu við súrefni.

Rjómalíkjörar geta bæði súrnað og kekkjast. Forðast ber að geyma þá í hita. Mælt er með að þeir séu drukknir innan þriggja mánaða frá opnun flösku.

Um freyðivín gilda í meginatriðum sömu reglur og um önnur léttvín, þ.e.a.s. að ekki er mælt með að geyma vín í opnum flöskum. Með fyrirvara um að vínin oxast aðeins og missa nokkuð af ferskleika sínum fljótt, þá þola freyðivín geymslu í opinni flösku tiltölulega vel vegna mikils sýruinnihalds og stundum sætleika sem hvort tveggja hjálpar til að halda vínunum ferskum og lifandi. Þau eru oft ágæt nokkurra daga gömul.

Almennt er betra að geyma opnar flöskur í kæli, en flest sérrí og tunnuþroskuð portvín, þurfa ekki á kælingu að halda.

Um besta neyslutíma léttra vína er ekki auðvelt að gefa beinar reglur þar sem smekkur ræður miklu hvort menn vilja rauðvínin ávaxtarík, tannísk eða gömul og þroskuð. Í vöruskrá og á vef eru notaðar merkingar sem eru vísbending um heppilegan neyslutíma og geymsluhæfi vína. Almennt má segja að flest léttvín eru miðuð við að vera góð ung (nánast um leið og þau koma á markað) og þola yfirleitt vandræðalaust 1-3 ár.