Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Sushi og vín

Sagði einhver sushi? Fyrir einhverjum áratugum hefði það aðeins verið lítill hópur sem hefði gert það en í dag eru það kannski fleiri en færri sem fá sér reglulega sushi. Enda hefur framboðið aukist gífurlega og margir sem setja það ekki fyrir sig að rúlla nokkrar rúllur og skella í örfáa bita heima sér. 


Sushi er þó aðeins einn angi japanskrar matargerðar og er japönsk matargerðarflóra dásamlega auðug. Japanir leggja mikinn metnað í matargerð en ekki síður framreiðslu. En aftur að sushi – fyrir áhugasamar sushiætur bendi ég á myndina Jiro dreams of Sushi til að upplifa ekta kaizen í sushigerð.


Mörgum finnst pörun víns og sushi ekki einföld. Sterkt wasabi, seltan í þaranum, umami í sojasósunni og rífandi engiferið eru mjög ríkjandi. Ágætt er að hafa í huga að velja vín sem eru fínleg og tiltölulega sýrurík.


Sake hentar alltaf vel með sushi. Sake er hrísgrjónavín frá Japan og er drykkur sem oft er borinn fram með japönskum mat. 
Búbblurnar í freyðivíni eiga mjög vel við sushi. Við val á freyðivíni er ágætt að taka ósætt eða smásætt freyðivín en ef þið hallist frekar að sætari freyðivínum þá getur það alveg gengið upp.


Af hvítvínum með sushi er af nógu að taka. Smásætur Riesling á vel við sterkt bragð wasabisins. Chablis vínin eru fínleg og hentug matarvín. Í apríl 2018 voru þemadagar í Vínbúðunum þar sem kynntar voru öðruvísi þrúgur. Af þessum þrúgum mætti helst nefna vín úr Albariño, Gavi og Verdejo. Sætleiki og bragðeiginleikar Gewürztraminer ganga vel með sterku bragði sushisins, en þá er betra að láta sýrumikla sojasósuna frekar vera vegna lágs sýruinnihalds vínsins. Fínleg vín úr Sauvignon Blanc gætu líka gengið upp.


Af hverju ekki að prófa vel kælt Fino sérrí næst með sushi? Ósætt Fino hentar vel með söltum mat og ræður vel við sterka bragðpallettu sushis.
Í bjórdeildinni er það fínleiki ljóss lagers eða premium pilsner sem hentar vel með sushi.


Að öllu jöfnu þykja rauðvín ekki henta vel með sushi, en ef velja á rauðvín er ágætt að passa upp á að tannínin séu lítil og mild. Rauðvín til dæmis úr Pinot Noir þrúgunni gætu gengið upp. Hins vegar ganga fínleg rósavín ágætlega með sushi.

Tanoshii!

Berglind Helgadóttir vínráðgjafi
Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi