Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Reykt lambakjöt

Það er þekkt um allan heim að nota reykt kjöt eða pylsur sem bragðgjafa í fersk salöt, en þunnar sneiðar af slíku kjöti gefa salatinu mjög afgerandi bragð. Örþunnar sneiðar af hangikjöti henta prýðilega í salöt en þær má einnig nota sem forrétt.

Hrátt hangikjöt er herramannsmatur og með því er kjörið að velja gott hvítvín. Reykt og saltað kallar á vín með einhverja sætu. Hafa má í huga hin frábæru hvítu vín frá Alsace, nú eða eilítið sætu þýsku Riesling vínin. En auðvitað má notast við hvaða sæta vín sem er eða létt og sætkennt rósa- eða rauðvín. Það má líka til gamans geta þess að þaðan sem hin fræga hráskinka Ítalíu er upprunnin, nánar tiltekið í Emilia-Romagna héraðinu, þykir sjálfsagt að nota Lambrusco með hráskinkunni. Þetta létta, örlítið freyðandi vín á líka mjög vel við íslenska hangikjötið.