Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Gráðostur og piparkaka með portvíni

Þegar ég heyrði fyrst af því fyrir nokkrum árum síðan að það væri gott að setja gráðost ofan á piparköku var ég allsendis ekki sannfærð. En ég ákvað þó að gefa því tækifæri þar sem mér finnst piparkaka góð og gráðostur líka. Og verð að segja að þetta er merkilega góð samsetning sem verður ekki síðri með sýnishorni af rifsberjahlaupi.  

Með þessu er svo hægt að opna flösku af portvíni. Bragðmikil, þétt og sæt portvín gefa ekkert eftir í þessari ævintýralegu vegferð bragðlaukanna.  

Öðlingurinn hann Palli, fyrrum samstarfsfélagi, vínráðgjafi og matgæðingur með meiru, er afskaplega skapandi í eldhúsinu og kom með sína eigin útgáfu af gráðostapiparkökusamsetningunni. Njótið vel! 

Blámyglu- portvíns smyrja  

120 g blámygluostur ( 1 pakki) 
30 g ósaltað smjör við stofuhita 
30 gr mascarpone
2 tsk. rifsberjahlaup
60 ml ruby port  

Aðferð :
Setjið portvínið í pott og sjóðið niður í síróp. Látið kólna á meðan ostahræran er löguð. Setjið allt nema portvínið í matvinnsluvél og blandið vel saman. Notið sleikju til að færa sírópið yfir í ostahræruna og blandið vel saman, þar til næstum kekkjalaust. Látið í sprautupoka eða litla skál og látið í kæli yfir nótt. Sprautið smyrjunni á piparkökur, berið fram og njótið! 

 Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi