Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Chardonnay

Ég drekk ekki Chardonnay...

… en ég drekk Chablis!
Þetta finnst mörgum í vínheimum skemmtilegur brandari. Fyrir þá sem ekki vita þá eru nefnilega vín frá Chablis (hérað í Frakklandi) gerð úr Chardonnay. 


Chardonnay er ein þekktasta hvítvínsþrúga í heiminum og er ekki síður vinsæl meðal vínræktenda og víngerðarfólks en neytenda. Hún er tiltölulega auðræktanleg, bæði í heitara og kaldara loftslagi og sýnir með afgerandi hætti í bragðeinkennum hvaðan hún kemur og hvaða meðferð vínið sem hún gefur af sér hefur farið í gegnum í víngerðinni. Þessi þrúga gefur því af sér ólíka stíla, sem er einmitt það sem átt er við með setningunni hér í upphafi. 
Þegar talað er um vínstíla eru mörg orð viðhöfð til að lýsa vínum. Það eru einmitt orðin sem hægt er að finna á hillumiðunum sem geta gefið vísbendingar um hvernig stíl vínið tilheyrir og þá einmitt hvort það henti persónulegum smekk, eða ekki.


Hægt væri að skipta Chardonnay stílum gróflega upp í tvo flokka: fínlegri og ferskari vín og svo mýkri og ávaxtaríkari vín. Í fínlegri og ferskari vínum má finna bragðeinkenni sítrus og ljósra ávaxta, eins og epli eða peru. Ef vínið fær eikarmeðferð, þá er eikin að öllu jöfnu einnig fínleg til að yfirkeyra ekki ávöxtinn. Vín frá kaldari svæðum, eins og Chablis, falla jafnan í þennan flokk.


Í mýkri og ávaxtaríkari vínstílnum eru það hins vegar suðrænir ávextir sem taka yfirhöndina, eins og til dæmis ananas og melóna. Fyrir sum þessara vína geta bragðeinkenni eikar birst með afgerandi hætti í formi vanillu eða kókos. Í sumum tilfellum hefur vínið fengið svokallaða MLF (malolactic fermentation) sýrumeðferð. En þegar þeirri aðferð er beitt er eplasýru vínsins umbreytt í mjólkursýru, sem gefur víninu mýkt og ákveðin bragðeinkenni, eins og smjör. Vín frá heitari svæðum, eins og Kaliforníu, falla jafnan í þennan flokk.


Með því að beina athyglinni að þessum bragðeinkennum og áferð vínsins, getið þið komist skrefi nær því að uppgötva eigin smekk; það er hvort þið drekkið Chardonnay, eða Chablis.  


Berglind Helgadóttir
vínráðgjafi