Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Austurlenskur matur og vínið með

Júlíus Steinarsson, vínráðgjafi
(úr Vínblaðinu, 1.tbl.8.árg.)

 

Austurlensk matargerð á mjög upp á pallborðið hjá Íslendingum eins og reyndar víðar á Vesturlöndum. Matargerðin er afar fjölbreytt og hefur hvert land og jafnvel héruð hvert sínar áherslur. Eitt er þó yfirleitt sammerkt með matnum að hann er töluvert kryddaðri en við eigum að venjast. Þá er oft vandasamt að velja rétta vínið með og jafnvel spurning hvort bjórinn henti ef til vill betur með sterkkrydduðu?

Til að léttvín gangi vel með krydduðum mat þá er best að vínið sé frekar létt en ávaxtaríkt og sætt. Hvítvín eru mun betur fallin til að passa með krydduðum mat, þá gjarnan Gewurztraminer eða Pinot Gris frá Alsace eða önnur hvítvín með svipaða eiginleika. Með sushi passar Riesling þrúgan vel og eins Sauvignon Blanc frá Nýja-heiminum. Ekki gleyma að reyna þurrt Sherry með sushi sem getur komið skemmtilega á óvart. Ef nota á rauðvín með matnum þá þurfa svipaðir eiginleikar að vera til staðar. Léttur sætkenndur ávöxtur virkar vel og þá ættu tegundir eins og Beaujolais og nýja-heims Pinot Noir að vera heppilegar eða aðrar svipaðar tegundir.

Ef bjórinn er valinn er heppilegast að vera með öl sem hefur þéttleika, mýkt og sætleika. Einnig gengur vel upp að velja lager eða annan bjór með svipaða eiginleika.

Hér eru tvær uppskriftir sem gaman er að spreyta sig á.

Rækjusúpa TOM YUM GOONG

 • Ca. 2 lítrar gott kjúklingasoð (kjötkraftur)
 • 2 stilkar sítrónugras skorið í 3-4 cm bita
 • 4 stk. Kaffirlime lauf fæst í austurlenskum verslunum (má sleppa)
 • 3-4 cm ferskur engifer skorinn í bita
 • 2 rauðir chiliávextir smátt skornir
 • 2 teskeiðar fiskisósa (til í sumum stórmörkuðum og austurlenskum verslunum)
 • 1 ½ tsk. sykur
 • 6-8 sveppir skornir í fjórðunga og mýktir í smjöri
 • 500 g stór rækja
 • Safi úr 2 limeávöxtum 
 • 2 laukar skornir í sneiðar
 • 1 lúka ferskur saxaður koríander

Rækjusúpa

Aðferð
Hitið soðið og bætið í sítrónugrasinu, Kaffirblöðum, engifer og chili, lækkið hitann og sjóðið áfram undir loki í 15 mín.
þannig að kryddin virki.

Takið lokið af og bætið í fiskisósunni, sykrinum og sveppunum. Látið malla í 5 mín. Bætið síðan út í lime safa, lauknum og koríandernum. Að lokum setjið rækjurnar út í og hitið aðeins nema notaðar séu hráar rækjur þá þurfa þær aðeins lengri tíma.

Indverskar kjötbollur - KOFTA KORMA

 • 600-800 g af góðu lambahakki (má nota nautahakk)
 • 1 msk. matarolía
 • 2 meðalstórir laukar fínthakkaðir
 • 2 hvítlauksrif fínhökkuð
 • 2-3 msk. hveiti
 • 2 msk. ferskt koríander saxað
 • 1 tsk. garam masala
 • ½ tsk. steytt kúmen
 • ½ tsk. paprikuduft
 • 2 tsk. koríanderduft
 • ½ tsk. svartpipar
 • 1 tsk. salt

Sósan:

 • 1 dl matarolia
 • 4-5 hakkaðir tómatar
 • 1 tsk. grófsteytt kúmen
 • 3 lárviðarlauf
 • 2 kanelstangir
 • 1 tsk. turmerik
 • 1 rautt chili saxað
 • ½ tsk. salt
 • 1 dl þeyttur rjómi
 • 1 ½ dl matreiðslurjómi

Aðferð kjötbollur: léttsteikið lauk og hvítlauk og takið af pönnu og hrærið saman við krydd og þurrefni. Blandið síðan
saman hakkinu og kryddinu og mótið 16- 20 bollur og léttsteikið.

Sósan: Hitið olíuna í wokpönnu bætið við söxuðu tómötunum og öllu kryddi nema salti, steikið á meðalhita í 3-4 mín. Setjið
smá vatn á pönnuna ásamt saltinu og sjóðið bollurnar varlega í 10 mín. Bætið við rjómanum og sjóðið gætilega í nokkrar
mínútur. Veiðið kanelstangirnar upp úr ásamt lárviðarlaufunum. Berið fram með hrísgrjónum.