Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Áfengisnotkun fólks sem ekki hefur aldur til að neyta áfengis

Rit: Ölvun nemenda í 10.bekkSamkvæmt rannsóknum Rannsókna & greiningar (R&G) við Háskólann í Reykjavík  (HR) hefur áfengisnotkun unglinga í efstu bekkjum grunnskóla dregist verulega saman hér á landi undanfarinn áratug. Sem dæmi sýndu niðurstöður könnunar frá 1997 að þá höfðu 42% nemenda í 10. bekk orðið ölvuð sl. 30 daga. Í samskonar könnun Rannsókna & greiningar árið 2009 var þetta hlutfall komið niður í 18%. Rannsóknir R&G og vísindamanna við HR hafa enn fremur sýnt að þegar áfengisnotkun er annars vegar verður mikil breyting á milli 10. bekkjarins og  framhaldsskólans. Þannig eykst hlutfall þeirra sem hafa orðið ölvaðir sl. 30 daga um 140% frá vori 10. bekkjar og fram á fyrsta mánuð fyrsta árs í framhaldsskóla. Í ljósi þessa er einnig vert að benda á að áfengisnotkun meðal framhaldsskólanema hefur staðið nokkurn veginn í stað frá árinu 2000. Með öðrum orðum; ekki hefur náðst sami árangur í forvörnum meðal framhaldsskólanema og meðal nemenda í efstu bekkjum grunnskóla undanfarinn áratug. Í könnun R&G frá 2007 meðal framhaldsskólanema kom fram að yfir 60% allra þeirra höfðu  orðið ölvuð sl. 30 daga og að þetta hlutfall var vel yfir 50% meðal framhaldsskólanema undir 18 ára aldri. Mikilvægt er að sporna við áfengisnotkun framhaldsskólanema og kanna betur hvað veldur því að þau sem lögum samkvæmt hafa ekki aldur til að neyta áfengis gera það í svo miklum mæli.

 

Rit: 62% neyta áfengis heima hjá öðrumÍ sömu könnun R&G var athugað bæði hvar framhaldsskólanemar drekka áfengi þegar þeir gera svo og einnig hvernig þeir verði sér úti um áfengi. Svör þeirra bera með sér að algengast sé að framhaldsskólanemar neyti áfengis heima hjá öðrum en sjálfum sér en tæp 62% allra nemenda sögðust stundum eða oft gera svo. Í ljósi þessa er eftirtektarvert að um 44% stráka undir 18 ára og um 55% stelpna á sama aldri teljast í þessum hópi. Þá kom fram í þessum niðurstöðum að yfir 53% ungmenna í framhaldsskólum neyta áfengis stundum eða oft fyrir framhaldsskólaböll en þetta hlutfall var um 25% meðal stráka undir18 ára og tæp 33% meðal stelpna á sama aldri. Þessu til viðbótar segjast rúmlega 15% framhaldsskólanema neyta áfengis á framhaldsskólaböllum.

 

Rit: Foreldrar sem kaupa áfengi fyrir börnin sínÞessu tengt er athugun R&G í sömu könnun á því hvernig ungmenni í framhaldsskólum verða sér úti um áfengi. Niðurstöður rannsóknarinnar frá 2007 sýna að um 17% framhaldsskólanema undir 18 ára aldri segja að foreldrar þeirra hafi keypt fyrir þá áfengi einu sinni eða oftar um ævina. Þetta hlutfall meðal 18-19 ára ungmenna í framhaldsskólum er tæp 50%. Þá halda rúm 26% ungmenna á sama aldursbili því fram að foreldrar þeirra hafi boðið þeim áfengi einhvern tíma um ævina og rétt rúm 50% þeirra sem eru á aldrinum 18-19 ára.

 

Þessar niðurstöður sýna að forvarnaaðgerðir vegna áfengisnotkunar meðal framhaldsskólanema þurfa ekkí síst að beinast að foreldrum. Þá er ljóst að forvarnaaðgerðir í þessum hópi munu þurfa að taka félagslegt umhverfi þeirra inn í myndina og samstöðu þarf um að áfengisneysla þessa aldurshóps sé ekki látin óáreitt, hvorki á heimilum fólks né fyrir- eða á framhaldsskólaböllum.

 

 

 

 

 

Álfgeir Logi Kristjánsson

Álfgeir Logi Kristjánsson,

rannsóknarstjóri Rannsókna & greiningar