Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Áfengi og sykursýki

Sykursýki er sjúkdómur, sem gerir það að verkum að sykurmagnið (þrúgusykur/glúkósi) í blóðinu verður of mikið. Sykur er brennsluefni líkamans. Blóðsykurstjórnun er flókið ferli þar sem margir þættir hafa áhrif, svo sem líkamsáreynsla,fæði, geta lifrar til að brjóta niður sykur og framleiða blóðsykur og ýmis önnur hormón auk insúlíns. Til að blóðsykurinn nýtist sem orkugjafi þarf hann að fara úr blóðinu inn í frumur líkamans fyrir tilstuðlan insúlíns, sem er framleitt í briskirtlinum.

Blóðsykurinn hækkar:

Insúlín-mæling

  • vegna insúlínsskorts, þ.e. ef briskirtillinn framleiðir ekki insúlín (insúlínháð sykursýki)
  • þegar briskirtillinn framleiðir nóg insúlín en það nýtist
    ekki frumum líkamans (insúlínóháð sykursýki).

TIL ERU TVÖ AFBRIGÐI AF SYKURSÝKI :

  • Insúlínháð sykursýki, eða týpa 1, sem er algengari hjá ungu fólki og börnum
  • Insúlínóháð sykursýki eða týpa 2, sem er algengari hjá eldra fólki

Sykursýki mætti kalla velferðarsjúkdóm, því stærsti áhættuþátturinn er offita, hár blóðþrýstingur og reykingar. Lífsstíll sykursjúkra ætti í raun að vera ákjósanlegasti lífsstíllinn fyrir alla. Hollast væri fyrir okkur öll að takmarka fituneyslu, láta vera að reykja og umfram allt hreyfa okkur reglulega. Auk þess ættum við að vera meðvituð um hvernig áfengi virkar á okkur og neyta þess í hófi.

HVERNIG VIRKAR ÁFENGI?
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvernig áfengi virkar, en áfengi berst mjög fljótt út í blóðrásina, í raun án þess að hafa verið melt. Aðeins nokkrum mínútum eftir að áfengisins hefur verið neytt má mæla það í blóðinu. Lifrin brýtur áfengið niður og það tekur lifrina í meðalþungri manneskju um það bil tvær klukkustundir að brjóta niður áfengið úr einum bjór. Sé áfengi drukkið hraðar en lifrin nær að brjóta það niður, fer umframmagnið um líkamann og nær til allra vefja. Þegar menn tala um að finna á sér hefur áfengið náð til heilafrumnanna.

SYKURFALL VIÐ ÁFENGISNEYSLU
Fólk með sykursýki sem eru háð insúlínsprautum er hætt við sykurfalli við neyslu áfengis. Ástæðan er í einföldu máli sú að undir eðlilegum kringumstæðum umbreytir lifrin kolvetnabirgðum okkar í glúkósa og sendir út í blóðrásina til að viðhalda réttu magni blóðsykurs í líkamanum. Við neyslu áfengis hefur lifrin nóg með að brjóta niður áfengið og sykurinn verður þá útundan. Því getur orðið blóðsykursfall. Hættan á því er sérstaklega mikil hjá þeim sem taka inn blóðsykurslækkandi lyf til lengri tíma.

Nokkur ráð til að forðast of lágan blóðsykur við áfengisneyslu:

  • Ekki drekka á fastandi maga
  • Drekktu í hófi
  • Mældu blóðsykur áður en þú ferð að sofa
  • Fáðu þér eitthvað að borða áður en þú ferð að sofa til að forðast blóðsykursfall í svefni. Eftir áfengisneyslu verður að stjórna blóðsykri með því að neyta kolvetna.

AÐ MÖRGU BER AÐ HYGGJABlóðsykursmæling
Allir þeir sem vita að einhvert ójafnvægi er á blóðsykri þeirra þurfa að fara varlega við neyslu áfengis. Þeir þurfa að þekkja sjúkdóm sinn vel og þekkja einkenni og hegðun hans við neyslu áfengis. Þeir þurfa líka að kynna sér vel hvaða drykkir eru slæmir og hverjir eru skárri. Jafnframt er nauðsynlegt að vita hvað er verið að drekka. Það eru um 4700 manns með greinda sykursýki á Íslandi. Þar af eru 4200 með insúlínóháða sykursýki. Sá hópur þarf þó ekki síður en hinn að passa vel mataræðið og því mikilvægt að vita hvað er borðað og drukkið. Sem dæmi má taka að tveir lítrar af bjór, jafngilda 20 sykurmolum, tveir ljósir bjórar jafngilda 200 hitaeiningum og í einu rauðvínsglasi eru að jafnaði u.þ.b. 78 kaloríur. Þannig er nauðsynlegt að velja vel drykkina, sumir eru skárri en aðrir fyrir sykursjúka. Betra er að velja drykki með lægra alkóhólmagni og lágu sykurinnihaldi. Ef notað er bland út í sterk vín skal velja sykursnauða drykki s.s. diet gos

HVENÆR Á EKKI AÐ NEYTA ÁFENGIS?

  • Þeir sem hafa hlotið taugaskemmdir af völdum sykursýki ættu ekki drekka. Áfengi getur haft eituráhrif á taugaenda og aukið á verki, doða, náladofa og önnur einkenni taugaskaða.
  • Augnskaði af völdum sykursýki. Mikil neysla áfengis, (þrjú glös eða meira á dag) getur valdið því að augnskaði versni.
  • Hár blóðþrýstingur. Áfengi hefur áhrif á háan blóðþrýsting til hins verra.
  • Hátt hlutfall blóðfitu. Áfengi hefur áhrif á getu lifrarinnar
    til að hreinsa fitu úr blóðinu og því ættu þeir sem eru með hátt hlutfall blóðfitu (þríglýseriíð) ekki að neyta áfengis. Jafnvel lítil drykkja (tvö vínglös á viku) getur hækkað hlutfall blóðfitu.

HELSTU EINKENNI SYKURSÝKI
Þrátt fyrir að sykursýki sé vel þekkt eru margir sem vita ekki af því að þeir hafi sjúkdóminn. Það er jafnvel sagt að annað hvert tilfelli af insúlínóháðri sykursýki, þ.e. týpu 2 sé ógreint. Helstu einkenni eru:

  • Þorsti
  • Tíð þvaglát
  • Þreyta
  • Lystarleysi og þyngdartap
  • Kláði umhverfis kynfæri
  • Sýkingar í húð og slímhúðum

Höfundur greinarinnar:
Jórunn Frímannsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og
ritstjóri www.doktor.is

 

Inn á www.doktor.is er að finna mikið af upplýsingum um sykursýki og tengt efni. Þessi grein er unnin upp úr ýmsum greinum af vef www.Doktor.is, grein um Alcohol af vef amerísku sykursýkissamtakanna American Diabetes Assosiation og úr grein sem birtist í sænska Bolaget maí 2004