Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Vínsmökkun í vinnunni

27.03.2003

„Ferskt, ungt en þroskað í ilmi, græn epli, olía, lýsi, steinryk, örlítið þreytulegt, mjúkt." Allar þessar umsagnir og margar fleiri heyrðust í sérútbúnu smökkunarherbergi Áfengisverslunarinnar. Á borðum voru nokkrar flöskur af frönsku hvítvíni sem áttu það sameiginlegt að vera upprunnar í Alsace héraði. Níu manna íbygginn hópur lyfti glösum, horfði, lyktaði, saup á og spýtti út úr sér. Velti vöngum, skráði einkenni og gaf einkunn.

Þarna voru að störfum þrautreyndir smakkarar ÁTVR sem hittast í vinnunni til að bragða vín, þrisvar í viku. Skúli Þ. Magnússon, deildarstjóri vörudeildar, stjórnar samkomunum og skráir niðurstöðurnar.

Oftast er vínið blindsmakkað, þ.e. þátttakendur vita ekki á hverju þeir bragða hverju sinni. Þeir horfa á vínið og meta útlit þess og ilm og síðan bragðið. Allt er skráð eftir kúnstarinnar reglum og upplýsingarnar eru forsenda fyrir ýmsum umsögnum í bæklingnum og á vinbud.is, sem og fyrir táknum sem notað er í útgáfuefni ÁTVR fyrir neytandann að hafa til hliðsjónar þegar hann velur saman mat og vín.

Þjálfuðu smakkararnir í hópnum fara líka út í vínbúðirnar og smakka vín með starfsfólki til að gera því mögulegt að þjóna betur viðskiptavinum sínum.

Í þetta sinn var ekki blindsmökkun á dagskrá heldur lítil fræðslu- og kynningarstund um Alsace héraðið í Norðaustur- Frakklandi og vínframleiðsluna þar. Einn smakkarinn, Páll Sigurðsson, starfsmaður í Vínbúðinni Kringlunni, hafði tekið saman fróðleik um héraðið og vínin og miðlaði til hinna.

Síðan voru slegnir tappar úr flöskum og ilmur og bragð franskra eðalvína léku um skynfærin sem helst komu við sögu. Smakkhópurinn var greinilega á jákvæðum nótum og öll vínin stóðust prófið með ágætum. Sum vínin þóttu reyndar mjög góð og ein tegundin hafnaði í stjörnuflokki hjá sérfræðingunum: Gewurztraminer René Muré 1998. „Vín til að njóta," „nammi vín!" eru dæmi um hinar óformlegu umsagnir sem heyrðust við smökkunarborðið.

Engu að síður spýttu smakkararnir dýrindinu út úr sér með bros á vör og helltu niður afganginum úr flöskunni. Leikmanni blöskraði að sjá slíkar aðfarir en þannig eiga víst sérfræðingar í þessum fræðum að bera sig að.

Vínsmökkun er fag sem byggist á þekkingu, reynslu og þjálfun skynfæranna. Hópurinn í ÁTVR segir að upphafið megi yfirleitt rekja við almenns áhuga á víni og/eða mat. Svo læri menn smám saman eitt og annað um vínræktarlönd og héruð, um þrúgur og árganga, bragð og lykt, geymslutíma og allt mögulegt annað sem máli skipti. Og dag nokkurn vakni menn jafnvel upp sem atvinnumenn í vínsmökkun!

 „Við þurfum að halda skynfærunum stöðugt við efnið," sagði einn úr Alsace hópnum. ,,Ef líða margir dagar á milli smökkunar dofnar næmnin greinilega og ryðgar jafnvel í löngum sumarfríum."