Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Korktappinn á undir högg að sækja

01.07.2003

Hinn gamalreyndi korktappi á nú undir högg að sækja þar sem ýmsar prófanir hafa sýnt fram á það að vín á flöskum með skrúfutöppum smakkast ekki síður vel og jafnvel betur en þau sem hafa korktappa.
 
Fagritið Which? gerði nýlega tilraun á þessu með því að láta nokkra smakkara blindsmakka 16 tegundir rauðvína og hvítvína sem ýmist voru með skrúfutappa eða korktappa. Reynt var að velja mjög sambærilegar tegundir frá sömu vínræktarsvæðum.
 
Niðurstaðan var sú að hvítvínin með skrúfutöppunum komu betur út, þau voru talin "ferskari, með meiri karakter og fjörugri" en hvítvínin sem voru með korktappa. Aftur á móti var nánast enginn munur á rauðvínunum.
 
Korktappinn er þó nokkuð fastur í sessi og hefur almenningsálitið með sér. Könnun sem var gerð af sama riti leiddi í ljós að flestum fannst vínflöskur með skrúfutöppum ekki gefa sömu stemmninguna og það að opna flösku með korktappa og álitu auk þess að vín með skrúfutappa væru af minni gæðum. Það kann því að taka tíma að breyta skoðun neytenda.
 
 
Heimild: Berry Bros & Rudd: bbr.com