Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Kolefnisjöfnun er mikilvægur þáttur í samfélagslegri ábyrgð

12.07.2019

ÁTVR hefur sett sér umhverfisstefnu en grundvöllur hennar er virðing fyrir umhverfinu, að fara vel með verðmæti og að nota auðlindir af ábyrgð. Stöðugt er unnið að úrbótum til þess að uppfylla kröfur á sviði umhverfismála. Kolefnisjöfnun er því mikilvægur þáttur í samfélagslegri ábyrgð og sjálfbærni hjá ÁTVR.

 

Loftslagsmarkmið

ÁTVR er eitt af 104 fyrirtækjum sem taka þátt í samstarfsverkefni Festu og Reykjavíkurborgar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Sett hefur verið markmið um að draga úr beinni losun koltvísýrings um 40% fyrir árið. Viðmiðunarár er 2016.

Þegar hefur verið gripið til ráðstafana til að minnka losun. Fólksbílar hafa verið rafvæddir og vöruflutningar straumlínulagaðir til að minnka sóun.

Frá árinu 2012 hefur öll bein losun sem kemur frá bifreiðum og flugi verið kolefnisjöfnuð hjá Kolviði. Kolefnislosun hefur verið um 150 tonn árlega.  Gróðursetning trjáa er góð leið til að brúa bilið á milli notkunar jarðefnaeldsneytis og vistvænna orkugjafa í framtíðinni.  

ÁTVR hefur einnig horft á aðfangakeðjuna og sett markmið um að minnka kolefnissporið. Gerð var greining á vörusafninu og var niðurstaðan að umbúðir um vöruna gæfu stærsta kolefnissporið. Nú geta viðskiptavinir því séð áætlað kolefnisspor í vöruspjaldi á mörgum vörum og unnið er að því að upplýsa slíkt fyrir fleiri vörur.

Starfsfólki hefur verð boðið upp á samgöngusamninga, úrgangur flokkaður og endurvinnsluhlutfall hjá ÁTVR er 92%. Áhersla hefur verið lögð á fjölnota burðarpoka og að auka hlutfall rafrænna skjalasendinga. Einnig er boðið upp á fræðslu fyrir starfsfólk um umhverfismál, m.a.  í gegnum Græn skref í ríkisrekstri en allar Vínbúðir hafa innleitt skrefin fimm. 

Loftlagsmarkmið ÁTVR fyrir árið 2030
 
Kolviður og Votlendissjóður

Tveir aðilar bjóða upp á kolefnisjöfnun á Íslandi, en það eru Kolviður og Votlendissjóður. Einnig er hægt að vinna með Landgræðslunni með uppgræðslu lands. 
 

Kolviður Endurheimt votlendis

Bein losun sem kolefnisjöfnuð var hjá Kolviði var 124 tonn fyrir síðasta ár. Alls eru gróðursett 1.164 tré sem munu taka þátt í andardrætti Íslands um ókomin ár.

Á árinu var einnig samið við Votlendissjóð um að kolefnisjafna allt flug starfsfólks, 22 tonn. Lengd skurðar sem fyllt verður upp í er um 158 metrar. Við útreikning er reiknað með að áhrif endurheimtar gætir í 35 metra frá skurði í báðar áttir eða samtals 70 metra. Það eru því 11.060 m2 eða sem svarar 1.1 hektara.

Á lóð fyrirtækisins var trjágróðri plantað fyrir fjórum áratugum og er talið að þau bindi um 4 tonn af gróðurhúsalofttegundum árlega.
Sparnaður við að hætta að nota einnota drykkjarmál hjá fyrirtækinu dugar til að greiða fyrir alla kolefnisjöfnun fyrirtækisins. 


Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna

ÁTVR hefur innleitt Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í stefnu fyrirtækisins. Rannsóknir sýna að binding með skógrækt er lang áhrifaríkasta svarið við loftslagsbreytingum.  Með því að gróðursetja tré til að kolefnisjafna losun þá eykst líffræðilegur fjölbreytileiki með endurheimt vistkerfa. Líf í vatni verður fjölbreyttara með endurheimt votlendis. Því er kolefnisjöfnun vel fallin til að uppfylla kröfur í heimsmarkmiðum númer 13 - Aðgerðir í loftslagsmálum,  númer 14 - Líf í vatni og númer 15 - Líf á landi.

13 Aðgerðir í loftlagsmálum. 14 líf í vatni 15 líf á landi